Ævaforn mynt í harðlæstum peningaskáp

Héraðsskjalasafn Árnesinga var arfleitt að forláta peningaskáp ásamt fleiri munum úr eigu Helga Ívarssonar í Hólum í Stokkseyrarhreppi við fráfall hans 13. febrúar 2009.

Þorsteinn Tryggvi Másson, héraðsskjalavörður, segir Héraðsskjalasafnið meðal annars hafa fengið frímerkja- og myntsafn Helga í arf. Stærstur hluti myntsafnsins var varðveittur í peningaskáp sem læstur var bæði með lykli og talnalás en því miður var talnakóðann að skápnum hvergi að finna í gögnum Helga. Héraðsskjalasafnið brá því á það ráð að fá Jón Hafstein Hafsteinsson, lásasmið, til þess að opna fyrir sig skápinn. „Það tók enga stund. Hann var klukkutíma að brjóta upp peningaskápinn,“ segir Þorsteinn.

Í skápnum er meðal annars að finna mynt frá tímum Tetricus I sem ríkti sem keisari 270-273 e.Kr. í Gallíska ríkisins, en Þorsteinn telur þá mynt sem hafi mest menningargildi vera þá sem er frá Skandinavíu en töluvert er um nokkur hundruð ára gamla mynt auk seðla í safni Helga.

Baldvin Halldórsson, myntsafnari, var Helga innan handar við ráðgjöf og innkaup á mynt og hann verslaði á uppboðum í Danmörku fyrir hann. Sú kvöð fylgir arfleiðslu Helga á bæði mynt- og frímerkjasafninu að Héraðsskjalasafnið skuli reyna eftir mætti að auka við söfnin og haldnar skuli sýningar á þeim eigi sjaldnar en á þriggja ára fresti.

Helgi Ívarsson var mikill vildarvinur bæði Héraðsskjalasafnsins og Byggðasafns Árnesinga og arfleiddi bæði söfnin að öllum eigum sínum. Til að heiðra minningu Helga og gjafar hans halda söfnin sameiginlega sýningu á gripum hans á Safnahelginni í haust og verður hún uppi í mánuð.

mynt_helgi_894674947.jpg