Æfing viðbragðsaðila í Hellisheiðarvirkjun gekk vel

Á hverju ári æfa slökkviliðsmenn Brunavarna Árnessýslu viðbrögð við eldi og annarri vá í stöðvarhúsum Landsvirkjunar og Orku Náttúru.

Þessar æfingar eru hluti af samstarfssamningi Brunavarna Árnessýslu, Landsvirkjunar og Orku Náttúru.

Á hverju ári eru haldnar 10-12 æfingar af þessum toga. Markmiðið með æfingum þessum er að slökkviliðsmenn og aðrir viðbragðsaðilar kynnist húsakynnum og séu meðvitaðir um helstu hættur innanhús og utan. Æfð er samvinna starfsmanna virkjananna, slökkviliðsmanna og annara viðbragðsaðila með það að markmiði að hámarka upplýsingaflæði milli aðila á vettvangi og lágmarka þar með áhættu starfsmanna og björgunaraðila í þeim atvikum sem upp kunna að koma.

Síðastliðin laugardag æfðu slökkviliðsmenn í Hellisheiðavirkjun ásamt Lögreglunni á Suðurlandi og sjúkraflutningar HSU. Æft var í þeim hluta húsnæðisins sem hýsir gestamóttöku og jarðhitasýningu.

Óstöðugur gestur hélt starfsmanni föngnum
Æfingin gekk út á að lögregla, í samstarfi við starfsfólk, þurfti að rýma húsnæðið eftir að eldur kom upp í loftræstirými, óstöðugur gestur hafði þá verið valdur að íkveikju og hélt einum starfsmanni föngnum á þriðju hæð. Lögreglan á Suðurlandi þurfti því að tryggja öryggi slökkviliðsmanna ásamt því að koma starfsmanni ON til hjálpar. Slökkviliðsmenn fóru að því loknu inn og slökktu eldinn ásamt því að koma út verktökum sem voru innilokaðir vegna elds og reyks. Sjúkraflutningsmenn sinntu þeim svo er út var komið.

Alls voru þátttakendur í þessari æfingu um 30 og á rýnifundi að lokinni æfingu var það mál manna að vel hefði tekist til og æfingin gengið í heild sinni vel.

Fyrri greinPolskie Święta Wielkiej Nocy
Næsta greinÖruggt hjá Mílunni í lokaumferðinni