Vegan og glútenfrí pizza

FAGURGERÐI – MATUR // Þessa pizzu geri ég mjög oft og finnst hún alltaf jafn góð.

Ég hef verið að þróa uppskriftina smám saman og tel hana loksins vera nógu góða núna til að deila henni með ykkur.

Aðferðin virkar ef til vill flókin til að byrja með en treystið mér – þetta er ekkert mál 🙂

Hráefni:

 • 1 stór blómkálshaus
 • 2 og ½ msk möluð hörfræ
 • ¼ bolli vatn
 • Tæpur 1 bolli haframjöl (ég notaði glútenfrítt frá Amisa)
 • 2 msk næringarger (má sleppa ef þið eigið það ekki til)
 • 2 tsk oreganó (þurrkað)
 • 1 tsk sjávarsalt
 • ½ tsk hvítlauksduft
 • Nokkrar hristur af cayenne pipar (passa að setja ekki of mikið!)

+ pizzusósa, álegg og ostur (ég notaði vegan ost)

Aðferð:

 1. Skerið blómkálið í litla sprota og gufusjóðið þar til það er orðið mjög mjúkt eða þannig að þið getið skorið auðveldlega í gegnum það með borðhníf. Leyfið blómkálinu að kólna vel áður en þið meðhöndlið það frekar.
 2. Blandið möluðu hörfræjunum og vatninu saman í skál (eða bara í glasi) og geymið inn í ísskáp í sirka hálftíma.
 3. Setjið haframjölið í matvinnsluvél og malið það fínt niður eða þar til það er orðið eins og hveiti.
 4. Setjið haframjölið í skál ásamt kryddunum og blandið vel saman. Leggið til hliðar.
 5. Setjið blómkálið í síupoka (fást t.d. í Ljósinu) og kreistið vel allan vökva af því. Þið getið líka prófað að nota taubleiu eða mjög þunna tusku en ég mæli frekar með síupokanum.
 6. Þegar þið eruð búin að kreista vel allan vökva af blómkálinu, setjið það þá í skál ásamt möluðu hörfræjunum. Hörfræin ættu á þessum tímapunkti að vera orðin að klístraðri leðju. Athugið að hörfræin virka eins og egg í þessari uppskrift – sjá um að líma allt hráefnið vel saman – þannig að alls ekki sleppa þeim.
 7. Blandið lauslega saman blómkálinu og hörfræjunum með skeið eða sleikju.
 8. Setjið haframjölið með öllum kryddunum saman við og notið handþeytara (á lægstu stillingu) til að blanda öllu hráefninu vel saman.
 9. Setjið bökunarpappír á ofnplötu og stillið bakaraofninn á 200° (með blæstri).
 10. Notið sleikju til að blanda deigið enn betur saman eða þannig að það verði að einni kúlu. Hvolfið því næst deiginu á bökunarpappírinn og dreifið úr með sleikjunni. Reynið að hafa botninn jafn þykkan og ekki of breiðan að þvermáli (gott að miða við sirka 12” pizzu að stærð). Þið getið líka sett bökunarpappír yfir deigið og flatt þannig úr því, en það er svo lítið mál að nota sleikju til þess svo að ég mæli frekar með þeirri aðferð.
 11. Setjið plötuna inn í ofn og bakið í 20 mínútur.
 12. Takið plötuna úr ofninum og setjið áleggið á. Setjið aftur inn í ofnn og bakið í 15-20 mínútur.

Njótið!

ATH. #1 Á pizzuna setti ég: Græna og rauða papriku, sveppi, tómata, rauðlauk og spínat. Og svo svartan pipar yfir ostinn. Þið setjið auðvitað bara það álegg sem ykkur finnst best.

ATH. #2 Það er lítið mál að gera sína eigin pizzusósu, en stundum þegar ég er að flýta mér þá set ég bara lífræna tómatssósu frá Biona. Hún er sjúklega góð og inniheldur ekki high fructose corn syrup (sem er maíssterkju síróp og er sérlega óhollt fyrir okkur).

ATH. #3 Núorðið er hægt að fá margar tegundir af vegan ostum í búðum á Ísland en sitt sýnist hverjum. Það sem einum finnst gott finnst öðrum vont svo að það er um að gera að prófa sig áfram og finna sinn uppáhalds ost.

ATH. #4 Ef ykkur finnst of mikið mál að gufusjóða blómkálið þá getið þið líka prófað að skella því inn í örbylgjuofninn. Trikkið er bara að það verði nógu mjúkt svo að það sé hægt að vinna almennilega með það.

Fyrri greinLogi á opnum fundi
Næsta greinVona að nýir sófar leiði til bættrar umgengni í skólanum