Truflaðar lakkrístrufflur

FAGURGERÐI – MATUR // Þessi uppskrift er frá Iðunni vinkonu minni sem er einnig þjóðfræðingur og mikil áhugamanneskja um mat (sér í lagi hráfæði).

Ég man að þegar ég smakkaði lakkrístrufflurnar í útskriftarveislunni hennar þá gleyptu trufflurnar mig alveg í sig – þær voru svo góðar að ég sá varla né heyrði, haha. Það hafa örugglega allir einhvern tímann smakkað eitthvað svo gott að eina skilningarvitið sem virkar er bragðskynið

Hráefni:

 • 4 dl valhnetur (rúmlega) (lagðar í bleyti yfir nótt)
 • 1 dl hampfræ
 • 4 tsk lakkrísduft
 • 1 bolli + ½ bolli döðlur (það er sirka einn döðlupoki)
 • + lakkrísduft utan á kúlurnar

Aðferð:

 1. Skolið valhneturnar vel með vatni og setjið svo í blandara eða matvinnsluvél. Kurlið gróflega niður. Athugið að þið getið líka sleppt því að láta valhneturnar liggja í bleyti en ég mæli þó frekar með því að gera það. Með því að láta þær liggja í bleyti losnar um ensím og þær verða auðmeltanlegri -> betra fyrir kroppinn ef þær liggja í bleyti.
 2. Setjið hampfræin og lakkrísduftið út í blandarann/matvinnsluvélina og blandið vel saman.
 3. Setjið döðlurnar í skál og hellið sjóðandi heitu vatni yfir. Látið bíða í skálinni í 5-10 mínútur. Þetta er gert til að mýkja döðlurnar þannig að það sé auðveldara að vinna með þær.
 4. Setjið döðlurnar í blandarann eða matvinnsluvélina og blandið vel saman. Mér finnst best að vera búin að saxa döðlurnar gróflega niður áður en ég set þær í blandarann.
 5. Mótið kúlur úr deginu (stærð eftir smekk – mér finnst gott að hafa þær á stærð við borðtenniskúlur) og veltið þeim upp úr lakkrísduftinu. Setjið kúlurnar á bökunarpappír á bakka. Ef þið hafið blönduna of lengi í blandaranum/matvinnsluvélinni þá getur blandan orðið mjög klístruð. Það er allt í lagi en getur þó gert það að verkum að kúlugerðin verður aðeins meira mál – og klístraðri.
 6. Setjið bakkann með kúlunum inn í frysti og leyfið þeim að harðna í nokkra klukkutíma áður en þið borðið þær. En þið megið líka borða þær strax ef þið getið alls ekki beðið 🙂

Njótið!

johanna@sunnlenska.is

Fyrri greinFlúðaskóli fær veglegan styrk
Næsta greinMaðurinn sem féll í Þingvallavatn látinn