Sellerísafi

FAGURGERÐI – HEILSA // Sellerísafi gerir sannkallað kraftaverk fyrir heilsuna!

Ég spái því að eftir nokkur ár verði sellerísafinn jafn sjálfsagður drykkur á morgnana eins og volga sítrónuvatnið er núna hjá mörgum.

Hálfur líter af sellerísafa allra fyrst á morgnana – áður en þið drekkið eða borðið nokkuð annað – hefur einstaklega góð áhrif á heilsuna.

En hvað er svona merkilegt við þennan sellerísafa? Fyrst og fremst bætir hann meltinguna. Hann styrkir meltinguna og hjálpar líkamanum að vinna betur næringarefnin úr fæðunni. Þegar meltingin er góð, þá er heilsan er góð. Svo einfalt er það.

Persónulega hefur sellerísafinn haft þau áhrif á heilsu mína að meltingin er margfalt betri. Hárið (og líka augabrúnirnar) hefur einnig vaxið eins og ég veit ekki hvað og er núna enn þykkara og með meirum liðum. Það eina sem ég breytti var að ég fór að drekka sellerísafa á hverjum morgni.

En sellerísafinn gerir svo miklu meira en það.

Metsöluhöfundurinn Anthony William, betur þekktur sem Medical Medium, er maðurinn á bak við sellerísafann. Eða réttara sagt sá sem uppfræddi fólk upphaflega um lækningarmátt sellerísafans. Medical Medium segir:

Sellerísafi:

• Lækkar blóðþrýsting
• Hefur slakandi áhrif á taugarnar
• Hreinsar blóðrásina
• Hefur góð áhrif á sérhver húðvandamál, allt frá bólum til exems
• Hefur æðastyrkjandi áhrif
• Hefur góð áhrif á liðagigt og aðrar tegundir af gigt
• Er náttúrulegt þvagræsilyf og virkar því mjög vel á þá sem þjást af bjúg
• Skolar eiturefnum úr líkamanum
• Er bólgueyðandi
• Er ríkur af A-vítamíni, magnesíum og járni

• Er góður fyrir þá sem þjást af blóðleysi

Nú er örugglega einhver sem les þetta og hugsar: „Kjaftæði!” Ég segi við þann sama: Prófaðu að djúsa sellerí og drekka fyrst á morgnana í fjórar vikur og athugaðu hvort þér líði ekki betur, þá sérstaklega hvað varðar meltinguna.

Hvernig á að gera sellerísafa?

1. Notið heilt búnt af selleríi
2. Takið það allt í sundur og þvoið alla stilkana mjög vel með volgu vatni
3. Setjið stilkana í djúsvél
4. Drekkið safann á fastandi maga (á undan sítrónuvatninu)
5. Bíðið svo í 15-30 mínútur áður en þið drekkið eða borðið nokkuð annað

Verður ekki mikið einfaldara!

Heilt búnt af sellerí á að gefa sirka ½ líter af sellerísafa. Sellerí er þó mis stórt og safaríkt. Stundum þarf maður tvö búnt. En selleríbúntið kostar rétt rúmlega hundrað krónur svo að það ætti enginn að fara á hausinn við þennan heilsusið.

Smá viðvörun. Það er algengt og alveg eðlilegt að þið þurfið að kúka meira og oftar – fáið jafnvel niðurgang – fyrstu dagana sem þið eruð að byrja að drekka sellerísafana. Það eru eðlileg detox einkenni. Ég mæli því ekki með að byrja á þessu þegar þið eruð að fara í langt ferðalag 🙂 Athugið samt að það eru ekki allir sem upplifa svona mikla hægðarlosun. Það eru helst þeir sem eru með hærra magn af eiturefnum í sér sem fá mikil detox einkenni af safanum.

Hvað ef maður á ekki djúsvél? Þá getið þið saxað selleríið niður og sett í blandara og maukað þannig. Svo notið þið síupoka til að sigta hratið frá.

Hvað ef maður hefur ekki tíma til að djúsa sellerísafa fyrst á morgnana? Þá getið þið djúsað hann kvöldið áður og geymt í lokuðu íláti (t.d. kókosolíukrukku) inn í ísskáp. Athugið að sellerísafinn er samt alltaf öflugustur þegar hann er nýpressaður.

Hvað ef manni finnst sellerí alveg ógeðslega vont á bragðið? Það er margt sem maður gerir fyrir heilsuna sem manni finnst ekki skemmtilegt eða bragðgott einfaldlega vegna þess að maður veit að heilsan okkar er svo dýrmæt. Með því að drekka hálfan líter af sellerísafa á hverjum morgni erum við að gera líkamanum okkar stóran og mikinn greiða. Það er líka alltaf betra að hugsa um heilsuna áður en hún yfirgefur okkur. Það er ekkert smá dýrt og leiðinlegt að veikjast. Ég veit ekki með ykkur en mér finnst fyrirbyggandi aðgerðir alltaf betri en björgunaraðgerðir.

Annars er gott ráð að drekka sellerísafann með röri og bara hella honum í sig. Með tímanum lærir maður að meta bragðið kannski vegna þess að maður finnur hvað hann gerir líkamanum gott.

Sellerí með mjóum stilkum er einnig oft beiskara en það sem er með breiðum stilkum. Gott ráð er líka að taka blöðin af því að þau gera safann oft beiskari. En þið megið líka alveg djúsa blöðin með.

Ef þið getið ekki með nokkru móti drukkið sellerísafann því að ykkur finnst hann svo bragðvondur þá getið þið djúsað eina gúrku og/eða eitt epli með á meðan þið eruð að venjast bragðinu. En athugið að sellerísafinn er samt alltaf öflugustur einn og sér.

Frekari upplýsingar um sellerísafann og gagnsemi hans má finna hér.

Fyrri greinMalbikað á Biskupstungnabraut
Næsta greinSigursveinn verður skólameistari á komandi vetri