Samfélagsmiðill sem enginn ætti að láta fram hjá sér fara

FAGURGERÐI – LÍFSSTÍLL // Einn af uppáhalds samfélagsmiðlunum mínum er Pinterest.com. Ég kynntist þessum skemmtilega miðli fyrir rúmum tveimur árum og hef nýtt mér hann við ýmis tilefni síðan.

Fyrir mér er þetta frábært skjalasafn fyrir allt það sem ég finn á internetinu, má eiginlega líkja þessu við „Bookmarks“ nema bara miklu skipulagðara og þægilegra.

Það er nú oft sem við rekumst á eitthvað sem okkur þykir áhugavert á veraldarvefnum, t.d. flott hönnun, girnileg uppskrift, áhugaverðir veitingastaðir, ný tæki og tól. Þegar þig langar að geyma mynd af þessu áhugaverða sem þú varst að finna þá einfaldlega pinnarðu myndina á töfluna þína á Pinterest. Myndin vísar síðan á vefsíðuna sem geymir myndina ásamt upplýsingum tengda henni. Einnig getur þú hlaðið inn myndum beint frá tölvunni þinni ef þig langar að deila þeim með umheiminum. Þú getur svo sett inn texta og fyrirsögn við öll pin sem þú setur inn. Um 80% notenda Pinterest eru konur en ég hvet karlpeninginn til að kíkja á þetta því hver og einn notandi stjórnar uppbyggingu og áhugasviðum á sínum vegg.

Hver notandi á sína töflu (board) sem hann getur skipt niður eftir áhugasviðum t.d. fatnaður, fylgihlutir, heimilið, matur og ferðalög. Eins og á öðrum samfélagsmiðlum finnur þú einstaklinga sem þú villt fylgja (follow). Þú þarft ekki að fá samþykki fyrir að fylgja ákveðnum einstaklingum, heldur einfaldlega velur þú að fylgja einstaka töflum frá þeim sem þér þykja áhugaverðar eða öllum töflunum þeirra. Heimasvæðið þitt er síðan búið til úr pinnum frá þeim einstaklingum sem þú fylgir.

Ef þú sérð svo áhugavert pin frá einhverjum þá getur þú endurpinnað (repin) það á töfluna þína. Þetta hljómar kanski svolítið flókið en þetta er mun einfaldara en það kann að hljóma. Ég mæli með að prófa sig áfram og einnig er hægt að skoða og leita eftir alls kyns töflum með ákveðnum leitarorðum.

Hérna er mjög gott myndband sem sýnir hvað Pinterest er og hvernig það virkar.

Ég skrolla mjög oft yfir pinterest þegar ég er í hugmyndaleit að nýjum uppskriftum eða einhverju til að vera í og oftar en ekki finn ég eitthvað í fataskápnum sem ég para saman á nýjan hátt og hefði aldrei dottið í hug að prófa.

Hér getið þið fylgst með mér á Pinterest og ég hvet ykkur til að byrja að pinna og spinna ykkar eigin áhugaverða vef.