Raw valhnetupestó með kúrbítsspagettí

FAGURGERÐI – MATUR // Þetta valhnetupestó er ótrúlega einfalt og fljótlegt. Og gott.

Þarf ég nokkuð að taka það fram að það er líka súper hollt? 🙂

Best finnst mér að borða þetta pestó með kelpnúðlum en þar sem þær hafa ekki fengist í Bónus á Selfossi lengi lengi þá er kúrbítsspagettí það næst besta.

Þetta valhnetupestó er alveg upplagt til að taka með sem nesti í skólann eða vinnuna – eða bara borða heima í rólegheitunum.

Þetta er frekar stór skammtur, dugar fyrir amk tvo fullorðna (sem eru vanir að taka vel til matar síns).

Valhnetumaukið gerir það að verkum að þetta er líka ákaflega seðjandi réttur svo að það er erfitt að borða of mikið af þessu. Reyndar á raw matur það oftast sameiginlegt að maður þarf ekki mikið svo að maður verði vel saddur.

Hráefni:
1 bolli valhnetur (lagðar í bleyti yfir nótt) (ég notaði lífrænar frá Heilsu)
1 búnt af ferskri basiliku (það er heill „blómapottur“ í plasti sem maður kaupir út í búð)
2 hvítlauksrif, pressuð
2-3 msk sítrónusafi (úr ferskri sítrónu)
Hálft rautt chilli, fræhreinsað og smátt skorið niður
1 tsk sjávarsalt
1/4 bolli ólífuolíu (ekki ISO4 eða eitthvað álíka – það er bara alls ekki það sama) (ég nota nær alltaf ólífuolíuna frá Biona – finnst hún lang best)

+ 2 stk kúrbítar (eða 1 poki kelpnúðlur)

Aðferð:
1. Hellið vatninu af hnetunum og skolið vel.
2. Setjið hneturnar í blandara eða matvinnsluvél ásamt basilikunni, pressuðu hvítlauksrifunum, sítrónusafanum, chillinu og sjávarsaltinu. Blandið öllu vel saman eða þar til allt hefur maukast þokkalega vel saman.
3. Setjið maukið í skál og hellið ólífuolíunni út í. Blandið vel saman með skeið. Best er að leyfa pestóinu að „marinerast“ í svolitla stund áður en það er notað en það er líka allt í lagi að nota það um leið.
4. Afhýðið kúrbítana (ef þeir eru ekki lífrænir) og notið spiralizer til að búa til spagettí úr þeim. Spiralizer á að fást í öllum betri búsáhaldabúðum.
5. Blandið valhnetupestóinu og kúrbítsspagettíinu saman (best að nota sleikju til þess). Þið getið líka blandað jafnóðum og þið skammtið á diskana ykkar, ykkar er valið.

Njótið!

johanna@fagurgerdi.is

Fyrri greinLandsvirkjun styrkir viðamikla rannsókn á urriða og bleikju við Efra-Sog
Næsta greinHamar og FSu byrja á sigri