Raw skírnarterta

FAGURGERÐI – MATUR// Þessa hráköku gerði ég fyrir skírnina hjá bróðursyni mínum fyrir skömmu.

Kakan sló algjörlega í gegn í skírninni og var borðuð upp til agna. Ég rétt náði að bjarga einni sneið til að taka mynd af fyrir Fagurgerði.

Kakan er bragðgóð en þó mild á bragðið. Ekkert bragð yfirgnæfir annað svo að þessi kaka ætti að henta flestum.

Þó að það sé ekki nauðsynlegt að skreyta kökuna þá mæli ég eindregið með því. Fallegur og vel framsettur matur bragðast alltaf betur. Það er einfaldlega staðreynd 🙂

Botninn

 • 1 bolli möndlur (lagðar í bleyti yfir nótt)
 • 1 bolli döðlur
 • ½ bolli kókosmjöl
 • ½ tsk lífræn vanilla (duft en ekki dropar)
 • ¼ tsk sjávarsalt
 • 1 plata af dökku súkkulaði (ég notaði 70%)

Aðferð:

 1. Afhýðið möndlurnar og setjið þær í matvinnsluvél og kurlið niður. Setjið möndlurnar í stóra skál.
 2. Setjið döðlurnar í matvinnsluvél og maukið. Setjið döðlumaukið í skálina með möndlunum.
 3. Setjið súkkulaðið í matvinnsluvélina og látið matvinnsluvélina sjá um að saxa súkkulaðið mjög fínt niður.
 4. Setjið súkkulaðið, kókosmjölið, vanilluna og sjávarsaltið í skálina og blandið öllu vel saman með sleikju.
 5. Setjið í deigið í hringlaga kökuform og sléttið vel úr. Setjið inn í frysti í klukkutíma eða svo.

Fyllingin

 • 1 bolli kasjúhnetur (lagðar í bleyti yfir nótt)
 • ¼ bolli akasíuhunang (ég notaði raw frá Biona)
 • 1 tsk lífræn vanilla (duft en ekki dropar)
 • 200 ml kókosmjólk (ég notaði full fat)
 • 1 bolli jarðarber
 • 1 bolli bláber

+ mórber, gojiber, bláber og kókosflögur til að skreyta með

Aðferð:

 1. Skolið kasjúhneturnar og setjið í blandara ásamt hunanginu, vanillunni og kókosmjólkinni. Blandið öllu vel saman þannig að allt verið silkimjúkt og kekkjalaust.
 2. Setjið helminginn í skál og leggið til hliðar.
 3. Setjið jarðarber í blandarann og blandið vel saman.
 4. Sækið kökumótið úr frystinum og hellið úr blandaranum yfir botninn. Dreifið vel úr með sleikju.
 5. Setjið aftur inn í frysti í sirka 2 klst.
 6. Hellið restinni af fyllingunni aftur í blandarann ásamt bláberjunum og blandið vel saman.
 7. Hellið bláberjablöndunni yfir millilagið og dreifið vel úr.
 8. Skreytið kökuna að vild. Magn eftir smekk. Gott er að kurla mórberin niður í matvinnsluvél áður en þeim er stráð yfir kökuna.
 9. Setjið kökuna aftur inn í frysti og geymið yfir nótt.

ATH. #1 Ef þið notið frosin ber þá þurfið þið að láta þau þiðna áður en þið notið þau.
ATH. #2 Kakan þarf ekki að standa á borðinu í langan tíman áður en hún er skorin, max 30 mínútur (jafnvel hægt að skera hana fyrr).
ATH. #3 Ég mæli með mórberjunum frá Sólgæti. Þau eru einstaklega mjúk og bragðgóð.
ATH. #4 Munið svo að setja helling af ást í kökuna – þá bragðast hún margfalt betur! 🙂

Njótið!

Fyrri greinKlukkusýning Dodda opnar í Þorlákshöfn
Næsta greinÞriðja tap Ægis í röð