Raw rabarbara- og jarðarberjakaka

FAGURGERÐI – MATUR // Í garðinum hans pabba vex ofsalega fallegur rauður og smávaxinn rabarbari.

Mig langaði svo að búa til eitthvað gómsætt úr þessum rabarbara og eftir smá tilraunastarfsemi í eldhúsinu varð þessi hrákaka til.

Botninn:
1 bolli möndlur (lagðar í bleyti yfir nótt og afhýddar)
1 bolli pekanhnetur (lagðar í bleyti yfir nótt)
1 bolli döðlur (látnar liggja í sjóðandi heitu vatni í sirka 10 mín til að mýkja þær)
¼ tsk sjávarsalt

Öllu blandað saman í matvinnsluvél eða í kraftmiklum blandara. Setjið í hringlaga mót og inn í frysti á meðan fyllingin er búin til.

Fyllingin:
3 bollar kasjúhnetur (lagðar í bleyti yfir nótt)
¼ bolli sítrónusafi (kreistur úr sítrónum)
½ bolli lífrænt hlynsíróp
¼ bolli kókosmjólk
¼ bolli kókosolía, við stofuhita
1 tsk lífræn vanilla
Smá sjávarsalt

Allt sett í matvinnsluvél eða blandara og blandað vel saman þar til blandan verður silkimjúk. Hellið fyllingunni yfir botninn og setjið aftur inn í frysti á meðan efsta lagið er búið til.

Efta lag:
4 bollar af grófsöxuðum rabarbara
1 bolli frosin jarðarber
Tæplega ½ bolli sítrónusafi (kreistur úr sítrónum)
½ tsk lífræn vanilla
5 msk hlynsíróp

Blandið öllu vel saman og hellið svo yfir fyllinguna. Setjið aftur inn í frysti í smá stund eða þar til allt hefur frosið vel saman. Kakan geymist að minnsta kosti í viku í frysti. Athugið að ef hún er búin að vera í frysti í meira en nótt þarf hún að fá að að standa aðeins á borðinu áður en hún er skorin.

P.S. Það má líka blanda efsta laginu saman við helminginn af miðlaginu, þannig að efsta lagið verið þykkara og þéttara í sér. Þá notið þið einfaldlegu sömu aðferð og þegar þið búið til bláberjasæluna. Mér finnst aftur á móti skemmtileg tilbreyting að hafa efsta lagið aðeins öðruvísi 🙂

Njótið!

johanna@fagurgerdi.is

Fyrri greinÁtta ný herbergi við Lund á Hellu
Næsta greinLýst eftir Guido Varas