Raw pekan-súkkulaðikaka

FAGURGERÐI – MATUR // Þessi súkkulaðikaka er alveg svakalega góð. Og þessi kaka er líka alveg svakalega mikil súkkulaðikaka.

Þið þurfið ekki mikið af henni til að vera orðin súkkulaði-södd. Ein sneið og þið eruð búin að fullnægja súkkulaðiþörfinni fyrir kvöldið, eða að minnsta kosti næsta klukkutímann.

Botninn:
2 bollar raw kakó (eða bara lífrænt ef raw er ekki fáanlegt)
2 bollar möndlur, afhýddar (lagðar í bleyti yfir nótt)
1 bolli akasíuhunang (það er sirka heil flaska frá Himneskt)
3 msk kókosolía, við stofuhita
1 tsk lífræn vanilla, duft eða dropar

Blandið kakóinu, hunanginu, kókosolíunni og vanillunni vel saman með sleikju. Kurlið möndlurnar og blandið saman við restina. Þið megið alveg setja allt í matvinnsluvél en mér finnst betra að hafa botninn pínu „crunchy“. Setjið í hringlaga kökumót og inn í frysti á meðan þið búið til fyllinguna.

Fyllingin:
1 bolli raw kakó (eða bara lífrænt ef raw er ekki fáanlegt)
1 ½ bolli pekanhnetur (lagðar í bleyti yfir nótt)
½ bolli vatn
½ bolli akasíuhunang
½ bolli kókosolía, við stofuhita
½ tsk sjávarsalt
1 tsk lífræn vanilla

Blandið öllu saman í matvinnsluvél, með töfrasprota eða í blandara og setjið ofan á botninn. Geymið í frysti í klukkustund eða svo, þá ætti kakan að vera orðin tilbúin.

Njótið!