Raw möndluorkubitar

FAGURGERÐI – MATUR // Þessi uppskrift er einstaklega einföld. Ég hannaði hana þannig að allir ættu að geta búið hana til – burtséð frá því hvaða eldhúsgræjur þeir eiga eða ekki.

Það eiga nefnilega ekki allir matvinnsluvél, blandara eða töfrasprota. Það getur því verið ótrúlega svekkjandi fyrir þann sem vill búa sér til eitthvað hollt og gott sjálfur að sjá endalausar uppskriftir sem krefjast fyrrnefndra græja.

Einu græjurnar sem þið þurfið í þessa uppskrift er beittur hnífur og skurðbretti. Það er staðalbúnaður í flestum eldhúsum 🙂

Þessi raw möndluorkubitar innihalda bæði möndlur og möndlusmjör. Möndlur (og möndlusmjör) eru m.a. ríkar af E-vítamíni og magnesíum. Líkt og kalsíum þá er magnesíum mikilvægt fyrir beinin. Magnesíum hjálpar okkur einnig að framleiða orku og því eru möndlur frábærar sem millimál eða þegar okkur vantar smá auka orku.

Þess má geta að tvær matskeiðar af möndlusmjöri innihalda um 50% af ráðlögðum dagskammti af E-vítamíni. E-vítamín er mjög mikilvægt fyrir heilbrigða og fallega húð (hægir á öldrun hennar), er gott fyrir hjartað, ónæmiskerfið, blöðruhálskirtilinn, augun og er talið veita vörn gegn krabbameini. Það er því mjög gott að borða möndlur og/eða möndlusmjör á hverjum degi (ég set nær alltaf möndlusmjör í smoothie-inn minn).

Fyrir utan hversu hollir þessir möndluorkubitar eru, þá eru þeir einstaklega ljúffengir. Eina sætan í þeim eru döðlur en þó að þær séu sætar (innihaldi sykur) þá eru döðlur mjög hollar fyrir okkur. Döðlur eru t.d. ríkar af steinefnum, A-vítamíni, B1, B2 og B3-vítamíni og C-vítamíni. Svo eru þær líka mjög góðar fyrir meltinguna. Þegar maður hefur allt þetta í huga þá sér maður að það er töluverður ávinningur af því að borða döðlur reglulega. Í stóra samhenginu er sykurparturinn því algjört aukaatriði.

Hráefni:
1 bolli kasjúhnetur
1 bolli möndlur
1 bolli döðlur
3 msk raw kakó (eða bara hreint, lífrænt ef raw er ekki fáanlegt)
1/2 tsk lífræn vanilla (duft)
1/4 tsk sjávarsalt
1 msk kókosolía
1 krukka raw möndlusmjör (170 gr)*

Aðferð:
1. Saxið möndlurnar og kajsúhneturnar niður og setjið í skál.
2. Setjið kakóið, vanilluna og sjávarsaltið í skálina og hrærið aðeins í skálinni þannig að allt þurrefnið hefur blandast saman.
3. Saxið döðlurnar smátt niður og setjið í skálina ásamt kókosolíunni og möndlusmjörinu.
4. Byrjið á því að hæra hráefnið saman með sleif eða skeið. Þegar þið hafið blandað því gróflega saman, notið þá hreinar hendur til að hnoða hráefninu öllu saman svo að allt blandist vel saman.
5. Mótið litlar kúlur með höndunum og setjið á disk. Þið ráðið svo hversu stórar þið viljið hafa kúlurnar (mínar voru á stærð við golfkúlur).
6. Setjið kúlurnar inn í ísskáp og geymið í smá stund – eða byrjið bara strax að borða. Það þarf ekki að geyma þessar kúlur í frysti ekki frekar en þið viljið. Reyndar efast ég um að þið getið geymt þessar kúlur lengi – þær eru nefnilega fljótar að hverfa ofan í maga.

ATH. #1 Það er mjög mikilvægt að nota mjúkt möndlusmjör í þessar kúlur. Ég notaði raw möndlusmjör frá Biona.
ATH. #2 Ef ykkur finnst deigið vera of þurrt þegar þið eruð búin að hnoða það (m.ö.o. ef það gengur illa að móta kúlur úr því) þá getið þið bætt meiri kókosolíu við. Bætið þó bara 1 msk við í einu.
ATH. #3 Ef þið viljið hafa þessar kúlur sætari þá getið þið bætt við eins og 2-3 msk af hlynsírópi. Raw möndlusmjörið er þó eins og nammi og þó að þið séuð kannski nammigrísir að upplagi (viljið hafa hlutina vel sæta) þá er alveg líklegt að þið þurfið ekki meiri sætu en döðlurnar.

Njótið!

johanna@fagurgerdi.is

Fyrri greinLaun sveitarstjórnarmanna mishá
Næsta greinOf mörg mistök í vörn og sókn