FAGURGERÐI – MATUR // Þessi hrákaka er bæði falleg og bragðgóð. Já, og svo auðvitað alveg svakalega holl. Það þarf enginn að hafa samviskubit yfir því að fá sér eina sneið af þessari þegar manni langar í eitthvað sætt.
Uppskriftin er innblásin af gamalli uppskrift sem ég átti frá yndinu henni Sollu Eiríks. Solla var algjör brautryðjandi hvað varðar hollar og bragðgóðar uppskriftir og eigum við Íslendingar henni mikið að þakka.
Ég mæli eindregið með því að leggja hneturnar í bleyti í sólarhring áður en þær eru notaðar. Það er ekki nauðsynlegt en með því að leggja þær í bleyti þá losnar um ensím í þeim og þær verða auðmeltanlegri. Munið bara að skola þær líka vel áður en þið notið þær.

Raw jarðarberja- og súkkulaðikaka
Botninn:
- 1 ½ bolli möndlur
- ½ bolli valhnetur
- ½ tsk lífrænir vanilludropar eða duft
- 1 ½ bolli döðlur
- Rúmlega 1 bolli 85% súkkulaði
Aðferð:
- Setjið möndlurnar og valhneturnar í matvinnsluvél og malið gróft.
- Setjið döðlurnar og vanilluna saman við og blandið þannig að allt loði vel saman.
- Saxið súkkulaðið niður og hrærið út í deigið.
- Klæðið lausbotna kökuform með bökunarpappír og setjið deigið ofan í. Þrýstið deiginu vel ofan í formið.
- Setjið inn í frysti á meðan þið búið til fyllinguna.
Fyllingin:
- 1 bolli af kasjúhnetum sem hafa verið lagðar í bleyti í nokkrar klukkustundir (best ef það er yfir nótt)
- 1 og ½ dl lífrænt hlynsíróp. ATH. dl en ekki bolli.
- 1 og ½ dl kókosolía við stofuhita
- 2 tsk lífrænir vanilludropar eða duft
- Örlítið sjávarsalt
- 500 gr frosin jarðarber sem hafa fengið að þiðna örlítið (gott að taka þau úr frysti þegar maður byrjar að gera botninn)
Aðferð:
- Setjið kasjúhneturnar, hlynsírópið, kókosolíuna og vanilluna í matvinnsluvél og blandið vel saman.
- Bætið jarðarberjunum við og blandið þar til blandan er orðin silkimjúk.
- Sækið botninn úr frystinum og hellið blöndunni yfir. Dreifið úr og sléttið.
- Setjið inn í frysti yfir nótt.
- Gott að skreyta með ferskum jarðarberjum og bræddu súkkulaði daginn eftir en það er ekki nauðsynlegt.
- Njótið!
ATH. Þið getið haft súkkulaðið með lægra kakóinnihaldi – eða hærra! – bara eins og ykkur finnst gott. Ég mæli með lífræna súkkulaðinu frá Cachet sem fæst í Krónunni. Ódýrt en mjög gott.


