Raw jarðarberja- og vanillukaka

FAGURGERÐI – HEILSA // Í síðustu viku varð ég þess heiðurs aðnjótandi að vera beðin um að halda erindi á kvennakvöldi Kvennaklúbbs Karlakórs Selfoss þar sem ég kenndi hressum konum að búa til hráköku.

Kakan sem varð fyrir valinu var raw jarðarberja- og vanillukaka. Þessi kaka hefur alltaf vakið mikla lukku hjá öllum þeim sem hafa smakkað hana. Kakan er líka tiltölulega einföld og inniheldur ekki mörg hráefni. Hvoru tveggja finnst mér alltaf vera kostur þegar kemur að hrákökugerð.

Botninn:
1 ½ bolli möndlur (lagðar í bleyti yfir nótt)
2 bollar döðlur (lagðar í bleyti yfir nótt eða í nokkrar klst)
¼ tsk sjávarsalt

Afhýðið möndlurnar og setjið ásamt döðlunum og sjávarsaltinu í matvinnsluvél eða blandara eða maukið með töfrasprota. Blandið öllu vel saman og setjið í hringlaga mót og inn í frysti á meðan fyllingin er búin til.

Fyllingin:
3 bollar kasjúhnetur (lagðar í bleyti yfir nótt)
¼ tsk sjávarsalt
2/3 bollar kókosolía, við stofuhita
2 tsk lífræn vanilla (t.d. Rapunzel)
½ bolli akasíuhunang
1 bolli jarðaber (ef notuð er frosin, þá þurfa þau að þiðna alveg áður en þau eru notuð)

Blandið kasjúhnetunum, sjávarsaltinu, kókosolíunni, vanillunni og akasíuhunanginu vel saman í matvinnsluvél, í blandara eða með töfrasprota. Þegar blandan er orðin silkimjúk, setjið þá helminginn af blöndunni á botninn og aftur inn í frysti. Blandið jarðaberjunum vel saman við hinn helminginn og setjið á kökuna þegar hún hefur verið í frystinum í a.m.k. 30 mín. Þá er engin hætta á að miðlagið og efsta lagið blandist saman og verði að einni bleikri klessu.

Geymið kökuna svo í frysti í sirka 2 klst, þá ætti hún að vera orðin tilbúin. Ef kakan er geymd í sólarhring eða lengur í frystinum, þá þarf hún að þiðna í sirka klukkustund áður en það er hægt að borða hana. Kakan er langbest þegar það er auðvelt að skera hana með skeið.

ATH. Mér finnst best að nota möndlurnar frá Himneskt. Hef prófað önnur merki og það var nánast ógjörningur að afhýða þær möndlur. Eins mæli ég eindregið með að fólk noti heilar kasjúhnetur, til dæmis frá Himneskt eða Navitas.

Njótið!


Karlakórskonurnar með kökuna góðu að loknu góðu kvöldi. sunnlenska.is/Jóhanna SH

johanna@fagurgerdi.is

Fyrri greinJÁVERK bauð lægst í MS
Næsta greinEggert leiðir S-listann í Árborg