Raw jarðarberja- og súkkulaðikaka

FAGURGERÐI – MATUR // Þessi kaka var sérstaklega búin til fyrir afmælið hjá syni mínum.

Það er farin að vera hefð að búa alltaf til glænýja hráköku fyrir afmælið hans.

Ef maður ætlar að vita hvort einhver hrákaka er vel heppnuð, þá býr maður hana til fyrir fjölskylduafmæli. Þó að fólk sé hluti af sömu fjölskyldunni þá getur það verið mjög ólíkt – og með ólíka bragðlauka. Þannig að ef einhver hrákaka stenst gæðakröfur stórfjölskyldunnar þá getur maður verið nokkuð viss um að hún eigi eftir að gleðja fleiri bragðlauka.

Það er skemmst frá því að segja að kakan sló í gegn í afmælinu. Meira að segja þeir sem eru kannski ekki mikið fyrir hrákökur voru ánægðir með kökuna – og það finnst mér alltaf ágætis mælikvarði á bragðgæðin 🙂 Eins og með sushi þá þarf fólk stundum að venjast áferðinni og bragðinu af hrákökum.

Botninn:
1 bolli möndlur (lagðar í bleyti yfir nótt)
1 bolli pekanhentur (lagðar í bleyti yfir nótt)
1 bolli döðlur
1/2 bolli apríkósur
200 gr af dökku súkkulaði (ég notaði súkkulaði með karamellu)
1 msk raspaður appelsínubörkur (af lífrænni appelsínu)
1/2 tsk lífræn vanilla (duft)
Smá sjávarsalt

Aðferð:
1. Skolið möndlurnar og hneturnar vel með vatni og setjið í matvinnsluvél eða í blandara. Kurlið gróflega niður. Ef þið eigið hvorugt þá getið þið líka notað beittan hníf og saxað hneturnar niður.
2. Saxið döðlurnar, apríkósurnar og súkkulaðið gróflega niður. Setjið í matvinnsluvélina eða blandarann ásamt restinni af hráefninu. Blandið öllu gróflega saman. Mér finnst þessa kaka betri þegar botninn er í grófara lagi. Ef þið eigið ekki matvinnsluvél eða blandara þá getið þið blandað þessu öllu saman í skál. Athugið að þið þurfið þá kannski að saxa döðlurnar og apríkósurnar extra smátt niður svo að hráefnið loði allt betur saman.
3. Setjið blönduna í stórt hringlótt form. Þjappið blöndunni niður (t.d. með gaffli).
4. Setjið formið inn í frysti á meðan fyllingin er búin til.

Fyllingin
1 bolli kasjúhnetur (lagðar í bleyti yfir nótt)
3 bollar jarðarber
1/4 bolli hlynsíróp
1/4 bolli kókosolía, við stofuhita
1/4 bolli kókosmjólk
2 tsk lífræn vanilla (duft)
Smá sjávarsalt

Aðferð:
1. Skolið kasjúhneturnar með vatni og setjið í kröfugan blandara.
2. Setjið jarðarberin í blandarann. Ég notaði frosin jarðarber sem ég lét þiðna að mestu áður en ég setti þau í blandarann.
3. Setjið restina af hráefninu í blandarann. Blandið öllu saman þar til blandan verður silkimjúk.
4. Takið formið úr frystinum. Hellið blöndunni yfir og setjið aftur inn í frysti.
5. Eftir tvær klukkustundir eða svo ætti kakan að vera orðin nægilega þétt í sér. Best er að geyma kökuna í frysti yfir nótt en þá þarf hún að fá að standa í smá stund á borðinu áður en hún er skorin.

Njótið!

johanna@fagurgerd.is

Fyrri greinÞrír Norðurlandameistaratitlar á Selfoss
Næsta greinFundu blómapotta og leifar af kannabislaufum