Raw-Bláberjasæla

FAGURGERÐI – MATUR // Þessa hráköku elska allir – líka þeir sem elska ekki hrákökur.

Kakan frekar massíf en samt er hún létt í maga. Hún er sæt en samt ekki væmin. En hún er holl og góð eins og allar aðrar hrákökur sem ég bý til.

Botninn:
2 bollar valhnetur (lagðar í bleyti yfir nótt)
1/2 bolli heslihnetur (lagðar í bleyti yfir nótt)
1/3 bolli kókosolía, við stofuhita
1 bolli döðlur (lagðar í bleyti í nokkrar klst eða yfir nótt)
1/4 tsk kanill
1 tsk lífræn vanilla (duft eða dropar)

Öllu blandað vel saman í matvinnsluvél, með töfrasprota eða í blandara. Sett í hringlaga kökumót og inn í frysti á meðan fyllingin er búin til.

Fyllingin:
3 bollar kasjúhnetur (lagðar í bleyti yfir nótt)
3/4 bolli hunang (ég notaði akasíuhunang)
3/4 bolli kókosolía, við stofuhita
1/2 tsk lífræn vanilla (duft eða dropar)
1/4 tsk sjávarsalt

Blandið öllu vel saman þar til blandan er mjúk og falleg. Setjið helminginn af blöndunni á kökuna og svo kökuna aftur inn í frysti í klukkustund eða svo.

Blandið 1 bolla af bláberjum saman við hinn helminginn af blöndunni. Ef hún er of þykk er gott að setja smávegis af vatni saman við. Setjið bláberjablönduna ofan á kökuna og svo aftur inn í frysti. Eftir 1-2 klst ætti kakan að vera orðin tilbúin. Þessa köku á samt ekki að borða gaddfreðna, ekki nema þið endilega viljið. Þegar hún er búin að vera í frystinum í einhvern tíma (kannski yfir nótt) þá þarf hún að standa á borðinu í amk klukkutíma áður en þið borðið hana.

Njótið!

Fyrri greinÓkeypis næring fyrir hugann
Næsta greinNúmer klippt af átta bílum