Raw bláberjakaka með döðlusúkkulaði

FAGURGERÐI – MATUR // Þessa köku gerði ég fyrir 6 ára afmælið hjá syni mínum.

Sonur minn hjálpaði mér að búa til uppskriftina, það er ákveða hvaða hráefni ættu að vera, samsetningu og fleira. Hann elskar t.d. bláber og því kom eiginlega ekki annað til greina en að millilagið væri með bláberjum. Eins finnst honum döðlusúkkulaðið voða gott.

Það er skemmst frá því að segja að kakan sló algjörlega í gegn í afmælinu. Á tímabili leit út fyrir að ég hefði enga köku til að mynda og er þetta bókstaflega síðasta sneiðin af kökunni.

Botninn:

 • 1 bolli möndlur, afhýddar (lagðar í bleyti yfir nótt)
 • ½ bolli apríkósur
 • ½ bolli döðlur
 • ½ tsk sjávarsalt

Aðferð:

 1. Öllu blandað vel saman í blandara eða matvinnsluvél.
 2. Setjið deigið í hringlaga mót. Dreifið vel úr deiginu með sleikju. Geymið á borðinu á meðan millilagið er búið til.

Millilag:

 • 1 bolli kasjúhnetur (lagðar í bleyti yfir nótt)
 • ½ bolli frosin bláber (best að leyfa þeim að þiðna alveg áður en þau eru notuð)
 • ¼ bolli kókosolía, við stofuhita
 • ¼ bolli vatn
 • 4 msk akasíuhunang (ég notaði raw frá Biona)
 • 1 tsk lífræn vanilla (duft)
 • ½ tsk sjávarsalt

Aðferð:

 1. Öllu blandað vel saman í blandara.
 2. Hellið blöndunni yfir botninn og dreifið vel úr með sleikju.
 3. Setjið inn í frysti á meðan súkkulaðið er búið til. Best að leyfa forminu að vera í frystinum í amk 1 klst.

Súkkulaði:

 • 1 bolli döðlur
 • ½ bolli kakósmjör
 • 2 msk lífrænt kakó
 • 1 msk lucuma (má sleppa)
 • ½ tsk lífræn vanilla (duft)
 • ½ tsk sjávarsalt

Aðferð:

 1. Setjið döðlurnar í skál og hellið sjóðandi heitu vatni yfir þær. Leyfið þeim að liggja í vatninu í 30 mínútur eða svo (gott að byrja að gera þetta áður en þið byrjið að gera botninn).
 2. Bræðið kakósmjörið í vatnsbaði. Athugið að það þarf ekki að vera nákvæmlega ½ bolli af kakósmjöri – má vera aðeins meira eða aðeins minna. Það er voða erfitt að mæla kakósmjörið nákvæmlega þegar það er í föstu formi.
 3. Þegar kakósmjörið er orðið fljótandi, hellið þá vatninu af döðlunum og setjið þær í skál ásamt kakósmjörinu. Mér finnst best að nota töfrasprota til að búa til þetta súkkulaði og ef þið eigið svoleiðis græju þá notið þið ílátið sem fylgir honum. Annars er líka hægt að nota blandarann.
 4. Þegar þið eruð búin að setja döðlurnar og kakósmjörið í skál/ílátið, setjið þá restina af hráefnunum og blandið vel saman með töfrasprota (eða í blandara). Þegar blandan er orðin silkimjúk og kekkjalaus þá er súkkulaðið tilbúið.
 5. Takið formið úr frystinum (helst þegar það er búið að vera í 1 klst í frysti) og hellið súkkulaðinu yfir. Verið fljót að dreifa úr því en vandið ykkur samt. Ef millilagið er ekki frosið í gegn er hætta á að það fari á „flakk“ og blandist súkkulaðinu. Það er allt í lagi og getur gefið öðruvísi og skemmtilegt útlit.
 6. Skreytið með muldum kókosflögum (ef þið viljið).
 7. Setjið formið aftur inn í frysti og geymið í sirka 2 klst, best ef það er yfir nótt. Ef þið geymið kökuna í frysti yfir nótt þarf hún að fá að þiðna í smá stund áður en hún er skorin.
Njótið!
Fyrri greinÞórsarar í úrslitaleikinn í fyrsta sinn
Næsta greinFundað um bæjarhátíðir í Árborg