Raw bláberja- og sítrónukaka

FAGURGERÐI – MATUR // Þessi hrákaka er engri lík.

Hrákökuna bjó ég til fyrir 7 ára afmælið hjá syni mínum fyrir skemmstu. Kakan sló heldur betur í gegn – það var bókstaflega slegist um síðusta sneiðina! Fyrir næsta afmæli mun ég gera tvær svona kökur svo að enginn fari nú að slást 🙂

Botninn:

  • ½ bolli döðlur
  • ½ bolli valhnetur (lagðar í bleyti yfir nótt)
  • ¼ bolli gróft kókosmjöl
  • Smá sjávarsalt

Fyllingin:

  • 1 bolli kasjúhnetur (lagðar í bleyti yfir nótt)
  • ½ bolli kókosrjómi (sem geymdur hefur verið í kæli) (ég notaði frá Ecomil, fæst t.d. í Krónunni)
  • ¼ bolli kókosolía, við stofuhita
  • Safi úr einni sítrónu
  • Raspaður sítrónubörkur af einni sítrónu (ég mæli með því að nota lífræna)
  • 1/3 bolli akasíuhunang (eða önnur sæta)
  • ½ bolli frosin bláber (þiðnuð að mestu)
  • ½ tsk lífræn vanilla (duft en ekki dropar)

+ bláber, kókosflögur og karamella til að skreyta með

Aðferð:

  1. Setjið döðlurnar í matvinnsluvél og kurlið niður. Setjið þær í skál og leggið til hliðar.
  2. Hellið vatninu af valhnetunum og skolið. Setjið hneturnar í matvinnsluvél og kurlið niður. Setjið í skálina með döðlunum.
  3. Setjið kókosmjölið og sjávarsaltið í sömu skál og blandið vel saman með sleikju, gaffli eða einfaldlega með höndunum. Athugið að þið getið að sjálfsögðu sett öll hráefnin á sama tíma í matvinnsluvélina og blandað þeim þannig saman. Gallinn við það að þá verður botninn ekki eins grófur og áferðin því allt önnur.
  4. Setjið bökunarpappír í hringlaga form (23 cm í þvermál) með lausum botni. Hellið innihaldinu úr skálinni í formið og pressið vel niður með höndunum. Munið að setja fullt af ást í hráefnið í leiðinni 🙂
  5. Þegar botninn er orðinn vel þéttur, setjið þá formið inn í frysti eða á meðan þið búið til fyllinguna.
  6. Hellið vatninu af kasjúhnetunum og skolið. Setjið kasjúhneturnar ásamt restinni af hráefninu í blandara og blandið vel saman. Fyllingin á að vera silkimjúk og laus við alla kekki. Það fer eftir blöndurum hversu langan tíma það tekur, en verið þolinmóð.
  7. Þegar fyllingin er tilbúin, sækið þá formið úr frystinum og hellið fyllingunni yfir botninn. Dreifið úr með sleikju.
  8. Setjið formið aftur inn í frysti og geymið yfir nótt.
  9. Þið ráðið svo hvernig þið viljið skreyta kökuna – eða hvort þið viljið yfir höfuð skreyta hana. Ég mæli þó eindregið með því að þið skreytið hana og nostrið svolítið við hana því að fallegur matur bragðast alltaf betur. Ég notaði frosin bláber (sem voru búin að þiðna að mestu þannig að þau tolldu betur á kökunni), muldar kókosflögur og svo þessa karamellu hér. Það er mjög lítið mál að gera þessa karamellu og gerir hún ótrúlega mikið fyrir heildarbragðið. Passið bara að leyfa karamellunni að kólna í örfáar mínútur áður en þið setjið hana á (ég notaði skeið til að láta karamelluna leka þvers og kruss yfir kökuna).
  10. Setjið aftur inn í frysti og geymið í örfáar klukkustundir.
  11. Kakan þarf svo að fá að standa á borðinu í amk 10 mín áður en hún er skorin. Munið líka að fjarlægja kökuna úr forminu og setja á fallegan kökudisk. Framsetning matarins skiptir svo miklu máli – í alvöru 🙂

Njótið!

Fyrri greinHamar og FSu töpuðu
Næsta greinLava setrið opnar 1. júní næstkomandi