Próteinsjeik að hætti Dr. Hyman

FAGURGERÐI – HEILSA // Fyrir skömmu lauk ég við að lesa bókina The Blood Sugar Solution, 10-Day Detox Diet eftir Dr. Mark Hyman.

Bókin snýst í stórum dráttum um að hafa stjórn á blóðsykrinum en allar sveiflar á honum er slæmar fyrir heilsu okkar. Með því að hafa stjórn á blóðsykrinum þá fúnkerar líkaminn miklu betur á allan hátt.

Dr. Hyman segir frá því hvernig hinar og þessar fæðutegundir hafa áhrif á okkur og afhverju glútein, mjólkurvörur og sykur er svona slæmt fyrir okkur. Eins útskýrir hann afhverju við fáum okkur stundum einhvern „mat“ þrátt fyrir að vita mæta vel að maturinn gerir okkur ekkert gott. Bókin snýst í raun um að detoxa sig frá öllum þeim mat sem er slæmur fyrir mann.

Þessi bók fjallar ekki um safaföstu, vatnsföstu eða þannig „extream“ detox heldur kennir bókin fólki einfaldlega að borða rétt til að líða sem allra best. Eftir þessa 10 daga eru svo allar líkur á að fólk vilji halda áfram að borða þennan góða mat þar sem því mun (að öllum líkindum) líða svo miklu betur af þessari heilnæmu fæðu. Ég ætla ekki að útlista allt það sem stendur í bókinni en þetta er bók sem ég mæli klárlega með.

Aftast í bókinni eru fjölbreyttar uppskriftir sem eiga það sameiginlegt að innihalda hvorki korn, baunir, glútein, sykur eða mjólkurvörur en eru bragðgóðar og næringarríkar. Það eru til dæmis nokkrar uppskriftir að morgunverðarsjeikum. Ég hef ekki komist yfir að prófa allar uppskriftirnar en ég prófaði þennan sjeik um daginn. Ég var varla búin með hálft glas þegar ég var bara orðin södd! Þannig að þið sem upplifið það að verða aldrei södd af smoothie-um, prófið endilega þennan.

Eins og venjulega þá breytti í hlutföllunum örlítið. Ég bætti líka við spirulinu-dufti því að mér fannst vanta eitthvað grænt í sjeikinn. Einnig sleppti ég kókosolíunni einfaldlega vegna þess að mér finnst betra að taka hana inn eintóma.

Þessi sjeik passar fyrir tvo fullorðna (eða fyrir einn til að drekka tvo daga í röð).

Hráefni:
200 gr frosin bláber
Raspaður sítrónubörkur af einn lífrænni sítrónu
2 msk möndlusmjör (ég mæli með frá Biona)
2 msk graskersfræ
2 msk chiafræ (ég mæli með frá Navitas)
2 msk hempfræ (ég mæli með frá Navitas)
4 valhnetur
4 brasilíuhnetur
1 lítið avocado
200 ml möndlumjólk
200 ml kalt vatn
2 tsk spirulina

Aðferð:
1. Leggið graskersfræin, valhneturnar og brasilíuhneturnar í bleyti yfir nótt.
2. Setjið hempfræin og chiafræin í krukku með möndlumjólkinni og geymið inn í ísskáp yfir nótt.
3. Setjið allt hráefnið í kröftugan blandara og blandið þar til er silkimjúkt.

ATH. #1 Það er ekki nauðsynlegt að leggja hneturnar og fræin í bleyti en með því að gera það losnar um ensím og hneturnar og fræin verða auðmeltanlegri. Með öðrum orðum – það er betra fyrir kroppinn að leggja þetta í bleyti. Fyrir utan það þá er það ekkert mál 🙂
ATH. #2 Ef ykkur finnst sjeikinn vera of þykkur, bætið þá meiri vökva við.
ATH. #3 Ég mæli með lífrænu spirulinunni frá Organic Burst. Ég hef séð að heilsudrottningar á borð við Kris Carr og Ella Woodward eru að nota ofurfæðu frá því merki. Þær tvær eru konur sem eru sérlega vel upplýstar og gera miklar kröfur til fæðunnar sem þær setja ofan í sig.
ATH. #4 Eftir að ég prófaði að gera þennan sjeik er ég farin að setja graskersfræ og möndlusmjör í flest alla smoothie-a. Það er ótrúlegt hvað þetta tvennt gerir mikið fyrir smoothie-inn (gerir hann t.d. mun saðsamari). Ég mæli eindregið með því að þið prófið ykkur áfram með að setja hnetur og fræ í smoothie.

Njótið!

Fyrri greinFækkað um tvo í Arion banka
Næsta greinLofthreinsistöð orðinn hluti hefðbundins reksturs