Óveðurspeysan

FAGURGERÐI – HANNYRÐIR // Í mínum fyrsta pistli hér í Fagurgerði finnst mér viðeigandi að fjalla um peysu sem ég hannaði fyrir hönnunarsamkeppni síðastliðið haust.

Samkeppnin bar heitið Óveðurspeysan og var á vegum „Gengið til fjár“ í samvinnu við Ístex og Landssamtök sauðfjárbænda. Keppnin var haldin til heiðurs íslensku sauðkindinni. Yfirskriftin var því að hanna peysur sem væru lýsandi fyrir íslenskt óveður.

Mitt framlag til Óveðurspeysunnar var peysan Bylur. Ég valdi liti sem mér fannst lýsandi fyrir dimma daga og snjóbyl, sanna íslenska veðráttu. Því valdi ég að hafa fölbláan aðallit og gráhvítan sem mynsturlit. Peysan mín er prjónuð úr einföldum plötulopa og einbandi úr öðrum lit til að fá örlítið úfið yfirbragð. Ég gaf peysunni vinnuheitið „Winter wonderland“ svo hún ber með sér rómantískan blæ með snjókornunum. Þrátt fyrir það er óblíð veðráttan ekki langt undan, enda snjóbylur í mynstrinu.

Stroffin eru með óhefðbundnu sniði, en þar finnst mér gjarnan fallegt af hafa fíngerð gatamynstur. Það getur gert svo mikið fyrir einfaldar prjónaflíkur að skreyta með fallegu gatamynstri.

Hér má sjá umfjöllun mína um Byl á blogginu mínu, Prýðisprjón.

Veitt voru verðlaun fyrir fyrstu þrjú sætin í samkeppninni. Hér má sjá mynd af þeim:


(Frá vinstri) Vedda 3. sæti, 20. apríl 2. sæti og Kafla 1. sæti. Ljósmynd/istex.is

Það gleður mig að segja frá því að 3. sætið, Vedda er eftir sunnlendingin Marsibil Baldursdóttur frá Grashóli.

Sjá má allar peysurnar sem tóku þátt hér.

Eftir að úrslitin voru kunngjörð og peysurnar opinberaðar var mikill áhugi fyrir því að gefa út uppskriftir af þeim. Ístex hafði því samband við u.þ.b. fimmtíu útvalda peysuhöfunda sem tóku þátt. Þá sem að þeirra mati áttu fallegustu og áhugaverðustu peysurnar til þess að taka þátt í útgáfunni. Þetta veit ég af því mín peysa er þar á meðal. Uppskriftabók með Óveðurspeysunum má því vænta á næstu misserum.

Fyrri greinÞórsarar fundu sig ekki í Njarðvík
Næsta greinBúist við stormi undir Eyjafjöllum