Oil pulling

FAGURGERÐI – HEILSA // Oil pulling er eitt af þessu sem ég er lengi búin að vera á leiðinni að skrifa um.

Því miður er ekkert íslenskt orð sem lýsir þessari athöfn nógu vel – „olíumunnskolun“ kæmist kannski næst því en það er að mínu mati ekki nógu lýsandi orð.

Þegar ég heyrði fyrst um oil pulling þá fannst mér það hljóma frekar furðulega. En svo var ég alltaf að rekast á greinar um oil pulling á hinum og þessum heilsusíðum og sá að þetta væri eitthvað sem ég yrði hreinlega að prófa. Nú hef ég verið að nota oil pulling í meira en ár og get ekki hugsað mér að byrja daginn öðruvísi!

En hvað er nú eiginlega oil pulling? Oil pulling á rætur að rekja til ayurvedískra lækninga. Þetta er því alls ekki einhver tískubóla heldur er þetta forn lækningaraðferð sem undanfarin ár hefur orðið vinsæl á ný.

Oil pulling felst í því að maður tekur 1 stóra msk af kókosolíu í munninn og svissar henni til og frá í a.m.k. 20 mínútur. Það er mælt með að gera þetta fyrst á morgana áður en maður borðar eitthvað – þannig verða áhrifin mest – en það er líka allt í lagi að gera þetta seinna um daginn. Þegar maður er búinn að svissa olíunni allhressilega til og frá í um 20 mínútur spýtir maður kókosolíunni út úr sér, annað hvort í klósettið eða setur í pappír og svo ruslið. Skolið svo munninn með heitu/volgu vatni á eftir. Nota bene, ekki skyrpa olíunni í vaskinn því að þá er hætta á að þú stíflir vaskinn þegar kókosolían harðnar á ný. Af sömu ástæðu mæli ég með því að sturta um leið og maður spýtir kókosolíunni í klósettið. Og alls ekki kyngja kókosolíunni! Olían detoxar munninn (og líkamann) – dregur í sig alls konar ógeð úr tannholdinu sem þú vilt ekki fá ofan í maga. En það er fleira sem oil pulling gerir:

  • Styrkir tennur
  • Styrkir tannhold
  • Gerir tennurnar hvítari
  • Bætir andardrátt
  • Hreinsar kinnholur

…svo fátt eitt sé nefnt. Sumir vilja meira að segja meina að oil pulling komi í veg fyrir tannskemmdir eða hreinlega lagi þær! En ég vil nú ekki ganga alveg svo langt. En ég veit allavega að tennurnar mínar hafa aldrei verið betri eftir að ég byrjaði á þessari olíumunnskolun.

Til að auka áhrif olíumunnskolunnar enn frekar er gott að setja einn dropa af clove ilmkjarnaolíu eða einn dropa af thieves ilmkjarnaolíu frá Young Living (mitt uppáhald) – en það er alls engin nauðsyn. Sumir nota líka sesamolíu í staðinn fyrir kókos, hvort tveggja er mjög gott en mér líkar betur við kókosolíuna.

Prófið þetta. Þið verðið eflaust hissa á áhrifunum og líka hversu fljótt þið finnið fyrir þeim.

johanna@fagurgerdi.is

Fyrri greinBitlausir Selfyssingar fengu tvö mörk í bakið
Næsta greinKFR vann Suðurlandsslaginn