NÚNA

FAGURGERÐI – LÍFSTÍLL // Nýr mánuður. Nýtt upphaf. Nýr dagur. Ný stund.

Og hversu margir gerðust sekir um að hugsa „er kominn júní strax??!! Vá hvað tíminn líður hratt… ohhh ég ætlaði að vera búin að…“ og svo kemur upptalningarlistinn í huganum á okkur; allt sem við ætluðum að vera búin að breyta og bæta. Öll markmiðin sem við ætluðum að vera búin að ná.

Og við höldum áfram að hugsa „ok, nú geri ég þetta, ég verð að ná þessu fyrir þennan og hinn tímann, áður er þetta eða hitt gerist…“ af því að við teljum okkur trú um að við verðum að ná þessu og gera hitt og geta þetta og eignast svona og fara þangað og verða þannig ÁÐUR en við getum leyft okkur að njóta. Áður en við verðum hamingjusöm. EN þannig virkar það bara ekki! Og þó það sé margtugginn tugga er hún aldrei of oft tuggin, að lífið er núna.

Það er núna sem við eigum að njóta. Núna sem við erum. Núna sem hamingjan er með okkur. Aðeins ef við leyfum okkur að vera þakklát fyrir það sem við erum einmitt eins og við erum einmitt núna. Þakklát fyrir það sem við höfum einmitt núna. Fyrir lífið eins og það er núna. Það má vel vera að það sé ýmislegt sem okkur langar að breyta og bæta. En við megum ekki telja okkur trú um að við getum ekki notið tilverunnar eða orðið hamingjusöm annars. Þá erum við á villigötum. Það er gott og göfugt að setja sér markmið og horfa fram á við en við megum ekki vera svo upptekin af því að við gleymum að njóta þess sem er. Við erum besta útgáfan af okkur sjálfum einmitt núna! Við getum ekki verið annað en það sem við erum og það er stórkostlegt!

olof@fagurgerdi.is

Fyrri greinAuglýst eftir sveitarstjóra
Næsta greinGleðin réð ríkjum á Kótelettunni