Möndluorkubitar

FAGURGERÐI – MATUR // Möndlur eru meinhollar. Þær innihalda E-vítamín, magnesíum og prótein.

Þær eru góðar fyrir heilann, hjartað, æðarnar og eru taldar veita vörn gegn krabbameini. Að auki hafa þær góð áhrif á kólesterólið og blóðþrýstinginn. Svo gefa þær líka orku.

Þessir möndluorkubitar eru tiltölulega einfaldir í framkvæmd. Sem þýðir að maður sé líklegri til að búa þá til oftar en einu sinni. Það nennir heldur enginn að hafa mikið fyrir orkubitum þegar hann vantar orku. Miklu frekar að búa til þessa orkubita og fara svo að dúlla sér eitthvað í eldhúsinu.

Hráefni:
2 bollar möndlur (lífrænar, með hýði)
1/2 bolli heslihnetur
1/2 bolli sólblómafræ
2 msk hempfræ
1 krukka möndlusmjör (170 gr)
1/2 bolli kókosolía, við stofuhita
3 msk lífrænt hlynssíróp (má sleppa)
1 tsk lífræn vanilla (duft)
Smá sjávarsalt

Aðferð:
1. Kurlið möndlurnar og heslihneturnar niður, t.d. í matvinnsluvél. Ég notaði bara svona handkurlara sem er kominn til ára sinna en stendur þó alltaf fyrir sínu. Ef þið notið matvinnsluvél, passið þá að hafa möndlurnar og heslihneturnar grófmalaðar.
2. Setjið möndlurnar og heslihneturnar í stóra skál.
3. Setjið sólblómafræin, hempfræin, vanilluna og sjávarsaltið í skálina með möndlunum og sólblómafræunum og blandið vel saman með sleikju.
4. Hellið möndlusmjörinu saman við og blandið saman. Athugið að það getur verið svolítið stíft að blanda því saman við þurrefnið, en þá er bara að „saxa“ aðeins með sleikjunni þannig að það blandist betur saman 🙂
5. Hellið kókosolíunni og hlynssírópinu í skálina og blandið vel saman með sleikju. Athugið að ef þið viljið gera enn hollari útgáfu af þessum orkubitum þá getið þið sleppt hlynssírópinu. Möndlusmjörið og vanillan gefur alveg nógu mikið „nammibragð“.
6. Hellið blöndunni í kassalaga form. Ég mæli með því að hylja formið með bökunarpappír svo að það verði auðveldara að ná bitunum úr. Það er þó ekki nauðsynlegt. Stappið blöndunni með gaffli niður í formið þannig að bitarnir verði örugglega þéttir í sér.
7. Setjið inn í frysti á meðan kremið er búið til.

Súkkulaðikrem:
1/2 bolli lífænt kakó (allra best ef það er raw)
6 msk kókosolía, við stofuhita
2 msk hlynssíróp (meira ef þið viljið hafa kremið sætara)
1/2 tsk lífræn vanilla
Smá sjávarsalt

Aðferð:
1. Setjið kakókið, vanilluna og sjávarsaltið í skál og blandið saman.
2. Setjið kókosolíuna og hlynssírópið í skálina og blandið vel saman.
3. Takið formið úr frystinum og notið sleikju til að smyrja súkkulaðinu á. Ef þið hellið því öllu í einu er hætta á að það frjósi að einni klessu. Kókosolían gerir það að verkum að súkkulaðið er mjög fljótt að harðna þegar það kemst í snertingu við kulda.
4. Takið beittan hníf og skerið orkubitana í mátulega stóra bita. Þið getið svo strax fengið ykkur að borða eða sett þá aftur inn í frysti og leyft þeim að harðna enn frekar. Orkubitarnir ættu að geymast í alveg viku inn í frysti en ég efast þó um að þeir vera svo lengi til 🙂

Athugið að það er mjög mikið kakóbragð af þessu kremi. Ef þið fílið ekki dökkt súkkulaði, bætið þá meiri sætu við. Mér finnst súkkulaði með háu kakóinnihaldi langbest. 70% súkkulaði er meira að segja orðið „of ljóst“ fyrir mig – alveg satt. Hafið í huga að of mikill sykur – í alveg sama hvaða formi hann er – er ekki hollur fyrir okkur.

Þó að hunang, döðlur, hlynssíróp sé mun betra en hvítur sykur og hrásykur, þá hækkar þessi náttúrulega sæta samt sem áður blóðsykurinn hjá okkur. Sama með ávexti. Allar sveiflur á blóðsykrinum er ekki gott fyrir okkur. Best að borða þetta allt saman í hófi og muna að njóta hvers bita.

johanna@fagurgerdi.is

Fyrri greinÓvissustigi við Sólheimajökul aflétt
Næsta greinSelfoss upp í 3. sætið