Meiriháttar kókosbollakökur með döðlukókoskremi

sunnlenska.is/Jóhanna SH

Þessar hráfæðis bollakökur er einfaldar og fljótlegar í vinnslu. Að auki eru þær sérstaklega bragðgóðar, næringarríkar og hollar.

Það er mjög gott að eiga svona í frystinum og fá sér þegar gott tilefni er til. Og það er alltaf hægt að finna tilefni fyrir svona dásemd.

Botninn:

  • 2 bollar kókosmjöl
  • 8 msk akasíuhunang (eða hlynsíróp)
  • 4 msk kókosolía
  • 1 tsk lífræn vanilla (duft en ekki dropar)
  • Smá salt

Aðferð:

  1. Allt sett í matvinnsluvél og blandað vel eða þar til allt loðir vel saman.
  2. Notið matskeið og skammtið hráefninu í 12 sílikonform (eða öðruvísi form). Þjappið hráefninu niður með skeiðinni.
  3. Leggið til hliðar á meðan þið búið til kremið.

Kremið:

  • 1 ½ bolli döðlur
  • 4 msk hlynsýróp
  • 1 bolli kókosmjólk
  • ½ tsk lífræn vanilla (duft en ekki dropar)
  • Smá sjávarsalt

Aðferð:

  1. Setjið allt hráefnið í blandara og blandið vel saman eða þar til blandan er orðin silkimjúk. Ef þið eigið Vitamixer þá er lang best að nota stautinn til að hjálpa blandaranum að blanda þessu vel saman.
  2. Setjið kremið ofan á botnana. Gott að setja fyrst allt kremið í skál og skammta svo með matskeið.
  3. Skreytið með kókosflögum og granateplakjörnum. Eða einhverju öðru. Eða sleppið bara að skreyta 🙂
  4. Setjið formin inn í frysti og geymið yfir nótt.

Njótið!

ATH. #1 Mér finnst koma betur út að nota akasíuhunang í botninn frekar en hlynsíróp – botninn verður þéttari í sér. Hunang er aftur á móti ekki vegan svo að ef þið eruð „hard core vegan“ þá notið þið hlynsíróp í staðinn.

ATH. #2 Ég notaði sílikonform sem eru áföst saman, sex í einu. Sílikonform sem eru stök eru oft svolítið laus í sér sem þýðir að það er erfiðara að móta kökurnar.

ATH. #3 Ég mæli með að nota lífrænt kókosmjöl í þessar bollakökur. Einhverra hluta vegna blandast það betur saman og botninn verður þéttari í sér en þegar ég prófaði að nota ólífrænt.

Fyrri greinFjórtán fulltrúar frá Selfossi í landsliðshópum
Næsta greinPatrekur tekur við Skjern – „Selfoss á stóran stað í hjarta mínu“