Lucky Lucy – hrákaka

Ég veit fátt skemmtilegra að búa til eitthvað gott í eldhúsinu – vera í flæðinu og leyfa töfrunum gerast. Ég kalla þetta oft matarjóga því að þetta hefur svo ótrúlega slakandi og góð áhrif á mig. Þegar maður er svona í flæðinu þá gerir maður oftast „bara eitthvað“ sem getur verið smá vesen þegar maður gerir kannski einhverja snilld en man svo bara ekkert hvað maður gerði. Stundum næ ég samt að punkta eitthvað niður hjá mér þegar ég finn og veit að það sem ég er að búa til stefnir í einhverja snilld.

Þessi kaka er þannig. Algjör snilld (þó að ég segi sjálf frá). Kökuna bjó ég til þegar ég átti von á góðri vinkonu minni í heimsókn. Það var því eðlilegast að skíra kökuna (hálfpartinn) í höfuðið á vinkonu minni – Lúcíu.

Ég vona að þið verið jafn ánægð með þessa köku og allir þeir sem hafa smakkað hana.

Þarf ég nokkuð að taka það fram að kakan er vegan, glútenfrí og alveg ofboðslega holl? 🙂 Kókospálmasykurinn er líka bara með sykurstuðulinn 35 svo að hann ætti ekki að koma ójafnvægi á blóðsykurinn og hentar því vel þeim sem þurfa að passa upp á hann.

Ekki láta langan hráefnis- og aðferðarlista hræða ykkur – þetta er mjög einföld kaka sem allir ættu að geta búið til.

Botninn:

 • 1 ½ bolli pekanhnetur
 • 1 ½ bolli gráfíkjur
 • 5 msk kókosolía, við stofuhita
 • Smá sjávarsalt

Aðferð:

 1. Allt sett í matvinnsluvél og blandað vel saman þannig að hráefnið loði allt vel saman.
 2. Klæðið hringlaga kökumót (með lausum botni) með bökunarpappír og setjið deigið ofan í. Þjappið vel niður með skeið eða höndunum og jafnið úr botninum í leiðinni.
 3. Setjið til hliðar á meðan fyllingin er búin til.

Fyllingin:

 • 1 ½ bolli kasjúhnetur (sem hafa verið lagðar í bleyti a.m.k. 6 klst)
 • 1 bolli bláber (frosin og fengið að þiðna í smá stund á borðinu)
 • ½ bolli kókosmjólk
 • ¼ bolli lífrænt hlynsíróp
 • 2 msk kókosolía
 • 1 tsk vanilludropar
 • Smá sjávarsalt

Aðferð:

 1. Allt sett í blandara og blandað vel saman þar til blandan er orðin silkimjúk.
  Hellið yfir botninn og setjið inn í frysti og geymið í sólarhring áður en þið setjið karamelluna yfir.

Karamellan:

 • ½ bolli kókospálmasykur
 • 6 msk kókosmjólk („full fat“)
 • 1 tsk vanilludropar
 • Örlítið sjávarsalt

Aðferð:

 1. Setjið kókospálmasykurinn á pönnu og stillið hitann á hæsta straum.
 2. Setjið kókósmjólkina saman við og blandið vel saman með sleikju.
 3. Leyfið karamellunni að „búbbla“ aðeins eða þar til þið sjáið að hún byrjar að þykkna. Ath. að karamellan er mjög heit, svo farið varlega.
 4. Þegar karamellan er orðin þokkalega þykk, slökkvið þá undir og takið pönnuna af hellunni.
 5. Setjið vanilluna og sjávarsaltið saman við og blandið vel saman.
 6. Takið hrákökuna úr frysti og notið skeið til að láta karamelluna leka þvers og kruss yfir kökuna (eða bara eins og þið viljið).
 7. Setjið hrákökuna aftur inn í frysti og geymið í a.m.k. 1 klst áður en þið borðið hana.
 8. Njótið!

ATH. Ég nota lífræna vanilludropa en það getur stundum verið erfitt að finna þá í búðum. Þið getið líka notað lífrænt vanilluduft (sem er brúnt á litinn) en þá þurfið þið sirka helmingi minna af því.

Fyrri greinFyrrverandi alþingiskona ráðin leikskólastjóri í Vík
Næsta greinUppskeruhátíð Smiðjuþráða á listasafninu