Ljúffeng sítrónukaka (hnetulaus)

FAGURGERÐI – MATUR // Þessi sítrónukaka er alveg dásamleg á bragðið.

Fyllingin:

 • 1 bolli ósoðnar kjúklingabaunir
 • 3/4 bolli sítrónusafi
 • 1/2 bolli kókospálmasykur
 • 3/4 bolli kókosolía, við stofuhita
 • 1/2 tsk lífræn vanilla (duft ekki dropar)
 • 1/2 tsk sjávarsalt
 • 2 meðalstórir, vel þroskaðir bananar

Aðferð:

 1. Sjóðið kjúklingabaunirnar eftir leiðbeiningum. Ég mæli með því að láta kjúklingabaunirnar liggja í bleyti yfir nótt, það styttir suðutímann töluvert. Þið getið vissulega keypt tilbúnar soðnar kjúklingabaunir en hitt er svo lítið mál (og ódýrara). Ef þið kaupið tilbúnar soðnar baunir þá eru það sirka 2 og 1/2 bolli af kjúklingabaunum.
 2. Þegar þið eruð búin að sjóða baunirnar, skolið þær þá og leyfið þeim að kólna svolítið. Ath. það á ekki að vera neinn vökvi á baununum.
 3. Setjið baunirnar í blandara (eða matvinnsluvél) ásamt restinni af hráefninu og blandið vel saman.
 4. Þegar blandan er orðin silkimjúk, hellið henni þá í skál á meðan þið búið til botninn.

Botninn:

 • 1 1/2 bolli bókhveitiflögur
 • 1/2 bolli kókosmjöl
 • 1 tsk lífræn vanilla (duft ekki dropar)
 • Smá sjávarsalt
 • 1 1/2 bolli döðlur

+ muldar kókosflögur, raspaður sítrónbörkur og sítrónusneiðar til að skreyta (má sleppa)

Aðferð:

 1. Setjið bókhveitiflögurnar, kókosmjölið, vanilluna og sjávarsaltið í blandara (eða matvinnsluvél) og blandið vel saman þar til allt er orðið að fínmöluðu mjöli.
 2. Saxið döðlurnar smátt niður og setjið í blandarann (eða matvinnsluvélina). Það er ekki nauðsynlegt að saxa döðlurnar niður en það léttir blandaranum mínum töluvert vinnuna. Eins er gott að láta döðlurnar liggja í heitu vatni í sirka 10 mín til að mýkja þær aðeins þannig að það sé auðveldara að vinna með þær.
 3. Blandið döðlunum og mjölinu vel saman og hellið deiginu í stórt hringlaga eldfast mót.
 4. Notið hendurnar til að dreifa úr deiginu og þjappa því niður í mótið. Munið að setja ást í deigið um leið 🙂
 5. Hellið fyllingunni í mótið og setjið inn í frysti.
 6. Eftir sirka 1-2 klst er gott að taka kökuna úr frystinum ef þið viljið skreyta hana (má sleppa). Munið bara að nota lífrænar sítrónur því að þið viljið alls ekki borða börkinni af ólífrænum sítrónum.
 7. Setjið kökuna aftur inn í frysti. Best er að geyma hana í frystinum yfir nótt. Þegar þið takið hana úr frystinum þá þarf hún að fá að standa í sirka 11/2 klst áður en þið getið skorið hana.
Njótið!
johanna@sunnlenska.is
Fyrri grein„Þessir strákar eru tilbúnir að leggja sig fram“
Næsta greinVilja að ríkið setji fé í varnargarð við Uxafótarlæk