Kókoskarrýsúpa með sætum kartöflum

FAGURGERÐI – MATUR // Þessa súpu gerði ég fyrir okkur Iðunni vinkonu nú í vikunni.

Uppskriftin að súpunni varð til eins og svo margar aðrar – á staðnum. Með öðrum orðum ég gerði „bara eitthvað“ en passaði að skrá allt samviskusamlega niður. Ég gleymi mjög oft að skrá niður hlutföllin sem er verra þegar maturinn heppnast gífurlega vel og maður man bara ekkert hvað maður gerði!

Þessi súpa er einstaklega einföld, holl og góð. Og eins og með flestar ef ekki allar súpur þá er hún enn betri daginn eftir.

Reyndar var ekkert mikið eftir af súpunni daginn eftir því að við Iðunn klárðuðum næstum því heilan súpupott, haha. Það er ef til vill ágætis mælikvarði á það hversu góð þessi súpa er 🙂

Hráefni:

 • 1 msk kókosolía
 • 1 stór laukur
 • 3 hvítlauksrif
 • 5 gulrætur
 • 1 + ½ rauð paprika
 • 1 gul paprika
 • 1 stór sæt kartafla
 • 1 l vatn
 • 200 ml kókosmjólk
 • 200 ml maukaðir tómatar
 • 2 msk tómatpúrra
 • 1 msk grænmetiskraftur
 • 2 tsk karrý
 • 1 tsk paprika
 • 1 tsk turmeric
 • 1 tsk sjávarsalt
 • ½ tsk kóríander
 • ½ tsk garam masala
 • Smá svartur pipar

Aðferð:

 1. Setjið kókosolíuna í stóran pott og stillið á hæsta straum.
 2. Saxið laukinn niður og pressið hvítlauksrifin og setjið í pottinn og steikið.
 3. Saxið gulræturnar, paprikurnar og sætu kartöfluna niður (munið að flysja kartöfluna) og setjið í pottinn.
 4. Steikið grænmetið þar til það byrjar að mýkjast. Ef ykkur finnst vanta meiri vökva til að steikja grænmetið, setjið þá smá vatn í pottinn. Það er algjör óþarfi að setja meiri olíu.
 5. Þegar grænmetið er orðið mjúkt, hellið þá vatninu, kókosmjólkinni og maukuðu tómötunum út í og hræið vel.
 6. Setjið tómatpúrruna og kryddin út í, hrærið vel og leyfið súpunni að malla í sirka 30 mínútur. Mér finnst best að leyfa súpum að malla sem lengst og þá á mjög lágum hita (bara 2 eða 3).
 7. Skammtið ykkur súpuna á disk og njótið!

ATH. #1 Súpan bragðst enn betur ef hún er borðuð í góðum félagsskap.

johanna@sunnlenska.is

Fyrri greinBrotist inn í mælingabát í Landeyjahöfn
Næsta greinHamarsmaður kominn í NBA