Kínóapizza með ekta pizzubotni (vegan og glútenfrí)

FAGURGERÐI – MATUR // Þegar maður borðar ekki glúten og vill borða hreinan og heilnæman mat þá getur það verið ansi snúið að gera pizzubotn sem bragðast og lítur út eins og „alvöru“ pizzubotn.

Ég hef minnst á það nokkrum sinnum áður en finnst ég þurfa að minnast á það einu sinni enn: Þó að eitthvað sé glútenfrítt þá þýðir það EKKI sjálfkrafa að maturinn sé hollur. Síður en svo.

Margt af þessu glútenfría dóti sem er á markaðnum er fullt af sykri og aukaefnum. Og einmitt þess vegna er svo mikilvægt að lesa alltaf innihaldslýsinguna á öllu sem maður kaupir.

Fólk er svo fljótt að grípa „glútenfrítt“ þegar það heyrir einhverja vöru auglýsta þannig – og halda að það sé eitthvað sem er úber hollt. Sem er í raun ósköp skiljanlegt því að í allri heilsuumræðunni er oft talað um glúten eins og það sé eitthvað baneitrað sem ber að forðast eins og heitan eldinn.

Hvort sem fólk borðar glúten eða kýs að forðast það (eins og t.d. ég) af ýmsum ástæðum, þá er þessi pizzubotn eitthvað sem allir ættu að elska.

Þessi pizzubotn er alveg fullkominn. Í alvöru. Ég eftast um að ég eigi nokkurn tímann eftir að gera öðruvísi pizzubotn en þennan guðdómlega kínóapizzubotn.

Þessi pizza er mjög einföld. Það eina sem er eitthvað „flókið“ við hana er að láta kínóagrjónin liggja í bleyti. En það er samt alls ekkert flókið þó að það hljómi kannski þannig 🙂

Hráefni:

  • ½ bolli kínóa
  • (Tæplega) ¼ bolli vatn
  • 1 msk ólífuolía
  • 1 tsk vínsteinslyftiduft
  • 1 tsk oreganó
  • ½ tsk sjávarsalt

Aðferð:

  1. Leggið kínóagrjónin í bleyti yfir nótt. Best er ef það eru tveir sólarhringar. Þetta er gert til að fá kínóagrjónin til að spíra. Þegar það fara að myndast litlir „halar“ á grjónunum þá eru þau byrjuð að spíra. Eins er hætta á óbragði ef þið leggið grjónin ekki í bleyti yfir nótt (ég hef einu sinni eldað kínóagrjón beint úr pakkanum og oj hvað bragðið var beiskt af þeim). Ef þið látið þau liggja í bleyti í tvo sólarhringa, skolið þau þá vel á milli og skiptið um vatn á þeim.
  2. Þegar þið eruð búin að láta kínóagrjónin liggja í bleyti nægilega lengi, skolið þau þá mjög vel í fíngerðu sigti (það fíngerðu að grjónin fari ekki í gegnum götin) og reynið að pressa mest allt vatnið af þeim.
  3. Stillið bakaraofninn á 180° með blæstri.
  4. Setjið kínóagrjónin í blandara ásamt restinni af hráefninu og blandið öllu vel saman eða þar til blandan er orðin silkimjúk (tekur ekki langan tíma). Athugið að deigið er MJÖG þunnt en þannig á það líka að vera.
  5. Takið kökuform, sirka 20 cm í þvermáli og leggið það á bökunarpappír. Teiknið hring utan um formið og klippið út.
  6. Setjið útklippta bökunarpappírinn í botninn á forminu.
  7. Hellið deiginu í formið og setjið inn í ofn. Bakið í 20 mínútur.
  8. Þegar 20 mínútur eru liðnar, takið þá formið úr ofninum, losið um hringinn á kökuforminu og hvolfið botninum varlega á ofnplötu.
  9. Losið bökunarpappírinn varlega af botninum (gott að nota hníf til að styðja við pappírinn svo að botninn fari örugglega allur af pappírnum).
  10. Setjið aftur inn í ofn og bakið í 10 mínútur.
  11. Setjið sósu og það álegg á pizzuna sem þið viljið og bakið pizzuna í 10 mínútur við 200°.
ATH. #1 Ég mæli með að nota gæða ólífuolíu í þessa pizzu. Ekki nota IS04 eða eitthvað álíka – það er bara ekki það sama. Ég nota nær eingöngu lífræna ólífuolíu frá Biona en vörurnar frá Biona eru í miklu uppáhaldi hjá mér (eins og fastir lesendur bloggsins hafa eflaust tekið eftir).
Þess má geta að í bókinni Eating for Beauty eftir David Wolfe, er talað um mikilvægi þess að velja lífræna extra virgin ólífuolíu. Ólífuolíur ættu einnig alltaf að vera pakkaðar inn í dökkt gler en ólífuolían er sérlega viðkvæm fyrir ljósi og oxun (þránar hraðar í ljósu gleri).
Best er að geyma ólífuolíu í köldum og dimmum skáp. Ég geymdi mína olíu alltaf í ísskápnum en samkvæmt David Wolfe er verra að vera alltaf að verma og kæla olíuna til skiptis (þannig að hún verði í föstu og fljótandi formi til skiptis). Þannig að nú geymi ég flöskuna í skápnum með vítamínunum mínum. Finnst það vel við hæfi 🙂
ATH. #2 Ég notaði vegan ost frá Divina Teresa (fæst í Mamma veit best í Kópavoginum, Gló Fákaefni, Lifandi markaði og Fjarðarkaupum). Sá ostur er alveg meiriháttar og lítið mál að rífa hann niður eins og venjulegan ost.
Njótið!
johanna@sunnlenska.is
Fyrri greinOddur kominn heim
Næsta greinGrýlupottahlaup 3/2015 – Úrslit