Kartöfluvöfflur

FAGURGERÐI – MATUR // Þessar kartöfluvöfflur geri ég nánast í hverri viku, enda alveg svakalega góðar.

Mér fannst uppskriftin svo einföld að það tæki því varla að setja hana inn á vefinn. En eftir fjölda áskorana ákvað ég að skella henni hér inn. Það er líka ágætt að hafa ofur einfaldar uppskriftir í bland við flóknu hráköku-uppskriftirnar.

Hráefni:

 • 15 meðalstórar kartöflur
 • 3 msk kókosolía
 • Svartur pipar
 • Sjávarsalt
 • Paprikukrydd

* Gerir sirka 5 vöfflur

Aðferð:

 1. Setjið kartöflurnar í pott ásamt vatni. Látið koma upp suðu, lækkið undir og sjóðið í sirka 20-25 mín eða þar til það er auðvelt að stinga með gaffli í þær.
 2. Hellið úr pottinum í vaskinn og látið renna kalt vatn í smá stund til að kæla kartöflurnar örlítið (ekki of mikið samt).
 3. Hýðið/flysjið/skrælið kartöflurnar og setjið aftur í pottinn.
 4. Stappið kartöflunum saman með stappara og setjið kryddin og kókosolíuna saman við. Kryddið eftir smekk. Hafið lágan straum undir pottinum
 5. Setjið vöfflujárnið í samband og stillið hitann á hæsta straum.
 6. Setjið sirka 3 stórar msk af kartöflustöppunni á vöfflujárnið og lokið járninu. Þrýstið vel niður. Bakið í sirka 5-10 mínútur.

Njótið!

ATH. #1 Þetta eru ekki rjóma og sultu vöfflur, heldur matarvöfflur.

ATH. #2 Hlutföllin eru ekki heillög. Þið getið notið meira/minna af kartöflum, meira/minna af kókosolíunni og meira að segja notað allt önnur krydd. Prófið ykkur endilega áfram.

ATH. #3 Vöfflujárn eru misjöfn að stærð og gerð. Fylgist vel með kartöfluvöfflunum á meðan þið bakið þær. Þær eru tilbúnar þegar þær eru orðnar fallega gullinbrúnar.

ATH. #4 Mér finnst best að setja kasjúhnetuost á kartöfluvöfflurnar (sjá uppskrift hér) en þið getið sett allt mögulegt á þær – venjulegan ost, grænmeti, alls konar sósur (kaldar sósur t.d.) eða bara hvað sem er. Þær eru líka alveg ofsalega góðar eintómar, þannig finnst fjölskyldunni minni þær bestar.

ATH. #5 Það er algengur (og sorglegur) misskilningur að kartöflur, sér í lagi hvítar kartöflur, séu óhollar. Staðreyndin er sú að þær eru meinhollar! Ekki vera hrædd við að borða kartöflur og borðið sem mest af þeim! Hér er frábær grein um ávinning þess að borða kartöflur.

Fyrri greinSelfoss tapaði en hélt 5. sætinu
Næsta greinInga Hlöðvers sýnir í Húsinu á Eyrarbakka