Karamelludraumur

FAGURGERÐI – MATUR // Þessi hrákaka er alveg unaðslega góð. Andstæðurnar mætast í grófum botni og silkimjúkri fyllingu.

Mjúkt karamellukremið setur svo punktinn yfir i-ið og gerir kökuna alveg einstaka á bragðið.

Botninn:

  • 1 bolli valhnetur
  • 1 bolli kókosmjöl
  • 1 bolli döðlur
  • 1 msk kókosolía, við stofuhita
  • Smá sjávarsalt

Aðferð:

  1. Setjið valhneturnar í matvinnsluvél eða blandara og kurlið niður. Setjið í skál og leggið til hliðar.
  2. Setjið kókosmjölið og sjávarsaltið í sömu skál og blandið vel saman.
  3. Setjið döðlurnar í litla skál og hellið sjóðandi heitu vatni yfir. Látið bíða í 10 mínútur sirka. Þetta er gert til að mýkja döðlurnar þannig að það verði auðveldara að búa til döðlumauk úr þeim.
  4. Setjið döðlurnar í matvinnsluvél eða blandara og maukið.
  5. Setjið döðlumaukið í skálina með hinum hráefnunum og blandið vel saman. Gott að byrja að nota skeið eða sleif og síðan hendurnar.
  6. Setjið degið í hringlaga mót og þjappið vel niður með höndunum. Þið getið annað hvort notað venjulegt keramik mót eða þá notað kökuform með lausum botni sem þið klæðið þá að innan með bökunarpappír.
  7. Leggið mótið til hliðar á meðan þið búið til fyllinguna.

Fyllingin:

  • 2 bollar kasjúhnetur (lagðar í bleyti yfir nótt)
  • ½ bolli kókosmjólk („full fat“)
  • 1/3 bolli kókosolía, við stofuhita
  • ½ bolli (tæpur) akasíuhunang (eða önnur sæta)
  • ¼ bolli sítrónusafni úr ferskri sítrónu
  • 1 tsk vanilla

Aðferð:

  1. Allt sett í blandara og blandað vel eða þar til blandan er orðin silkimjúk og laus við alla kekki.
  2. Hellið blöndunni í mótið með botninum.
  3. Setjið inn í frysti og geymið yfir nótt.

Karamellukrem

  • 400 ml kókosmjólk („full fat“)
  • 1 bolli kókospálmasykur
  • 1 tsk vanilla
  • 1 tsk kókosolía
  • Örlítið sjávarsalt

Aðferð:

  1. Hellið kókosmjólkinni í pott ásamt kókospálmasykrinum og saltinu.
  2. Stillið á hæsta straum og hrærið reglulega í.
  3. Fylgist vel með pottinum því að suðan kemur fljótt upp og þá gæti flætt upp úr. Það viljum við helst ekki 🙂
  4. Þegar suðan er komin upp, lækkið þá undir og látið krauma í sirka 40 mínútur. Hrærið í öðru hvoru. Síðustu 10 mínúturnar þurfið þið að hæra oftar í pottinum
  5. Þegar karamellan er orðin þykk og farin að dekkjast þá er hún tilbúin.
  6. Takið pottinn af hellunni og setjið vanilluna og kókosolíuna út í og hrærið.
  7. Leyfið karamellunni að kólna áður en þið hellið henni yfir kökuna.
  8. Hellið karamellunni yfir kökuna og setjið aftur inn í frysti í nokkrar klukkustundir eða bara yfir nótt.
  9. Kakan þarf svo að fá að standa á borðinu í smá stund (alls ekki lengi) áður en hún er skorin.
Njótið!


ATH. #1
Persónulega finnst mér valhnetur vera mis bragðgóðar. Bestar finnst mér þær sem eru lífrænar. Í þessa uppskrift notaði ég valhnetur frá Sólgæti. Eins finn ég bragðmun á ólífrænum og lífrænum kasjúhnetum – lífrænu kasjúhneturnar eru miklu bragðbetri. Ég hvet ykkur eindregið til þess að velja lífrænt þegar þess er kostur, ekki bara upp á bragðið að gera heldur fyrir móður jörð. Aðeins ein jörð, þið munið.

ATH. #2 Fræðilega séð getið þið búið til þessa köku á einum degi. Þá leggið þið kasjúhneturnar í bleyti eldsnemma um morguninn (t.d. kl. 7), búið til kökuna í hádeginu og svo karamelluna um kvöldið 🙂

Fyrri greinElvar tekur sæti á Alþingi
Næsta greinEnskunemendur gáfu af ferðasjóðnum í Sjóðinn góða