Karamellubomba

FAGURGERÐI – MATUR // Þessi kaka er algjört sælgæti!

Vinkonur mínar stungu upp á nafninu „Alsæla“ þegar þær smökkuðu hana því að þeim fannst hún svo svakalega góð.

Þessi kaka er innblásin af Mömmukúlunum og Cheerios-dásemdinni. Botninn er svipaður Mömmukúlunum og karamellan er mjög lík karamellunni í Cheerios-dásemdinni. Saman myndar þetta tvennt svo algjöra bombu!

Botn:

 • 1 bolli möndlur
 • 1 bolli kókosflögur
 • Smá sjávarsalt
 • 1 bolli döðlur
 • 3 msk hlynsíróp
 • 2 msk kókosolía
 • 1 tsk vanilla

Aðferð:

 1. Setjið möndlurnar, kókosflögurnar og sjávarsaltið í blandara og blandið þar til það er orðið að þokkalegu fíngerðu mjöli. Setjið í skál og leggið til hliðar.
 2. Setjið döðlurnar í skál og hellið sjóðandi heitu vatni yfir. Látið liggja í vatninu í sirka 10 mínútur. Þetta er gert til að mýkja döðlurnar enn frekar þannig að það sé auðvelt að búa til mauk úr þeim.
 3. Hellið vatninu af döðlunum og kreistið umfram vatn úr þeim í leiðinni. Setjið döðlurnar í blandara og maukið.
 4. Setjið döðlumaukið, hlynsírópið, kókosolíuna og vanilluna í skálina með hinu hráefninu. Blandið saman með skeið eða sleif, eftir því sem ykkur finnst vera betra. Deigið er mjög þykkt og klístrað og því getur verið erfitt að hræra í því.
 5. Setjið deigið í hringlaga eldfast mót. Dreifið vel úr með sleifinni.
 6. Setjið mótið inn í frysti á meðan þið búið til karamelluna.

Karamella:

 • 1 krukka Biona möndlusmjör (eða annað dökkt möndlusmjör)
 • ¼ bolli hlynsíróp
 • 4 msk kókosolía
 • Smá sjávarsalt
 • ½ tsk vanilla

Aðferð:

 1. Bræðið allt saman í vatnsbaði. Hrærið hratt og ákveðið í blöndunni þegar möndlusmjörið er byrjað að bráðna. Möndlusmjörið er mjög þykkt og blandast ekki restinni af hráefnunum af sjálfu sér.
 2. Þegar karamellan er orðin silkimjúk og laus við alla kekkji, sækið þá mótið úr frystinum og hellið yfir botninn. Dreifið vel úr með sleikjunni.
 3. Skreytið með söxuðum möndlum og muldum kókosflögum. Setjið smá hlynsíróp yfir (þvers og kruss) en bara rétt svo að það sjáist. Ekki setja það mikið að það verði allt löðrandi í því.
 4. Setjið mótið aftur inn í frysti og geymið í nokkrar klukkustundir eða yfir nótt.

Njótið!

Fyrri greinÆgir byrjar vel í Lengjunni
Næsta greinAnton Kári leiðir D-listann í Rangárþingi eystra