Hver elskar ekki förðunarráð?

FAGURGERÐI – FEGURÐ // Í mínum fyrsta pistli ætla ég að upplýsa ykkur um nokkur förðunarráð því nú eru þorrablótin í fullum gangi og árshátíðirnar framundan.

Þó svo að þau séu til mörg förðunarráðin þá finnst mér þau öll nytsamleg þar sem allir verða að finna það sem virkar best fyrir sína húð. En hér eru nokkur sem mér þykja nytsamleg, áhugaverð og skemmtileg.

Númer 1 er að undirbúa húðina vel kvöldið áður en þú ferð út á tjúttið 😉
Mér finnst frábært að nota gel skrúbbinn frá Artdeco. Hann inniheldur engin korn sem geta sært húðina heldur er hann með virkum efnum sem losa upp dauðar húðfrumur. Húðin verður mjög opin og mótækileg á eftir og því upplagt að setja á sig rakamaska og leyfa honum að vinna á húðinni í 15 mín.


Beauty Flash maskinn frá Artdeco er ekta til að nota til að gefa húðinni raka og ferskleika. Hann endurnýjar þreytta og líflausa húð og inniheldur meðal annars Oxyvital, Ginko, Lotus og Grape þykkni en þessi efni örva húðina og rétta af rakastig hennar. Næsta dag ætti húðin þín að vera mjúk, endurnærð og tilbúin fyrir förðun 🙂

Númer 2. Ráð varðandi grunnförðun
Lykilatriðið bak við fallega förðun er það að velja góðan farðagrunn ( Primer ) hann er settur á eftir rakakremi. Farðagrunnurinn fullkomnar yfirborð húðarinnar með því að fylla upp í fínar línur og gefur farðanum einnig lengri endingu.

Því næst setur þú fallegan farða sem blandast vel inn í þitt náttúrulega litarhaft og hefur þetta náttúrulega yfirbragð. Þegar kemur að andlitsfarða nota margar konur ýmist fljótandi farða eða krem/púðurfarða til að jafna húðlitinn og fá sléttari áferð. Þar sem þetta er ein dýrasta förðunarvaran er mikilvægt að kaupa réttan farða sem hentar þinni húðgerð svo þú fáir sem bestu útkomuna. Því er um að gera að kíkja á snyrtistofu og fá aðstoð hjá snyrtifræðing við að velja besta farðann fyrir þig.

Númer 3. Ráð varðandi hyljara
Flestir atvinnu förðunarfræðingar leika sér með hyljara og skapa og fela ýmislegt sem hin almenna kona gæti ekki gert án þess að læra það. Til dæmis eru margir sem vita kannski ekki að ef grunnförðunin þín er kremuð eða í púðurformi, þá er best að nota hyljarann fyrst, en hinsvegar ef að grunnförðunin er í fljótandi formi þá er betra að nota hyljarann undir lokin til að lagfæra hin minnstu smáatriði sem fara í taugarnar á okkur.


Frábær hyljari frá HR sem margir förðunarfræðingar telja þann besta til að hylja bauga, roða og bólur.

Númer 4. Ráð varðandi augabrúnir
Þegar farði er borinn á andlitið vill hann sitja í augabrúnunum, og það er ekki fallegt. Til að losna við þetta er gott að fara með bursta í gegnum augabrúnirnar til að bursta farðann úr. Ég nota frábæran augabrúnamaskara frá Artdeco sem er brúnt gel sem þykkir, mótar og nærir.

Númer 5. Ráð varðandi augnförðun
Sagt er að augun séu gluggi sálarinnar. Til að auka fegurð þeirra þarftu að kunna að velja réttu litina sem passa við þinn augnlit.

Hafðu alltaf í huga þegar þú setur farða á augu, að ljósir litir lýsa og stækka augnsvæðið á meðan dökkir litir innramma og skilgreina. Svartur passar við alla augnliti sem og dökkblár og hermannagrænn (khaki), þessir litir eru notaðir til að draga fram augnlitinn og þeir skapa dökkann ramma sem dregur fram bæði hvítuna í augunum og ljósu flekkina í augasteininum.

Til að leggja áherslu á brún augu eru grænir og bláir litatónar bestir, einnig brons, gráir og dökk fjólubláir. En forðastu liti eins og túrkís og blágrænan, veldu frekar matta ljós- og dökkbláa. Forðastu líka alsvarta smokey förðun, notaðu frekar gráa liti.

Fyrir græn augu skaltu velja liti eins og brúnan, plómu, lillaðan og dökkgrænan. Fyrir kvöldförðun eru ljósbrúnir og gylltir litir góðir fyrir græn augu. Bláir, sumir bleikir tónar, hvítur og silfur gera ekkert sérstakt fyrir græn augu. Kolsvartur eyeliner er flottur fyrir alla augnliti, en hlýjir litir eins og brúnn, gylltur, plómu, brons eða dökkgrár, henta grænum augum líka vel.

Svo eru það bláu augun, margir förðunarfræðingar hafa sagt að blá augu þurfi engin gervi til að leggja áherslu á fegurð þeirra. En best er að velja liti sem eru afleiður af appelsínugulum. Það er líka fallegt að leggja áherslu á blá augu með dökk- og ljósbrúnum, gráum, dökkgráum, bleikum, fjólubláum, silfur, gylltum eða lilluðum. Svo er líka gaman að stíga út fyrir ramman og vera svolítið djörf og nota gulan til að virkilega draga fram augun.

Muna bara að ef þú farðar þig með sterkri augnförðun þá leggur þú minni áherslu á varirnar og notar ljósan varalit og gloss.

Númer 6. Ráð varðandi varir
Hver vill ekki vera með safaríkar og flottar varir? Rétta trixið til að ná þeim sem fyllstum er að setja örlítið af augnskugga sem er í sama lit og varaliturinn sem þú notar rétt fyrir miðju bæði á neðri og efri vörina. Þetta skapar þetta munúðarfulla útlit sem enginn getur staðist 🙂

Númer 7. Skygging með sólarpúðri
Veldu þér sólarpúður sem er tóni dekkra en farðinn þinn og það er mjög gott að hafa það matt.

Mikilvægt er að hafa í huga hvers konar andlitsform þú ert að eiga við. Hvort þú ert með langleitt andlit, breitt, kringlótt, ferkantað andlit og svo framvegis.

Ert þú langleit? Ef þér finnst þú vera langleit og vilt draga úr þeirri ásýnd, prófaðu þá skrefin hér að neðan.

Það gerir þú með því að skyggja efsta part ennisins, alveg upp við hárrótina eftir að þú hefur farðað þig með þínum venjulega farða.

Til þess að ná fram enn meiri sjónhverfingu getur þú sett smá skygginu á neðsta part hökunnar svo þú dragir andlitið enn meira saman. Svo er alltaf falleg að setja undir kinnbeinin ef þú ert ekki með sýnileg kinnbein og kjálkalínu en langar að hafa smá skyggingu þar.

Þetta er ekki flókið þú einfaldlega tekur bursta og strýkur litnum á þann stað sem þú vilt. Passaðu bara að hafa ekki of mikið í burstanum því það er alltaf betra og auðveldara að bæta á heldur en að draga úr.

Ertu með kringlótt andlit? 
Þá tekur þú púðurburstann og setur örlitla skygginu á gagnaugun, sem og undir kinnbeinin til að draga kinnarnar inn. Mundu bara að blanda skygginguna vel svo hún sé ekki mikið sýnileg.

Ertu með hátt enni? 
Það þýðir ekki það að þú neyðist til að vera með topp, eins og margar með há enni gera.

Þú getur einfaldlega tekið matta sólarpúðrið og sett upp við hárrótina. Þannig lætur þú augað halda að ennið sé styttra en það er í raun.

Það er meira að segja hægt að breyta nefinu með skyggingu.

Ef þú ert með mjög breitt nef að þá getur þú sett örlítið sólarpúður á hliðar nefsins og mikilvægt er að blanda farðann vel.

Ef þú ert með undirhöku er gott að setja dekkra púðrið á hana en passaðu bara að undirhakan verði ekki dekkri en andlitið sjálft.

Markmiðið með skyggingunni er að draga fram hið fallega í andlitinu og minnka athyglina á þeim andlitspörtum sem vekja minni lukku.

Ef þú ert svo með sporöskjulaga andlit að þá ertu í góðum málum. Því með skyggingum erum við alltaf að reyna að ná því móti fram.

En það þýðir ekki að þú getir ekki nýtt þér skyggingarnar. Þvert á móti! Ýktu bara það sem þú hefur! 
Settu á gagnaugun, undir kinnbein og jafn vel upp við hárrótina (á enninu) sérstaklega ef þú ert með hátt enni.


Snillingarnir í Hollywood kunna svo sannarlega að nýta sér skyggingartæknina eins og sjá má á meðfylgjandi mynd af Kim Kardashian hún nýtir þetta út í yrstu æsar :)
 Á þessari mynd notar hún einnig highlighter á nánast allt andlitið til að láta t.d.augun poppa fram og ýta undir skyggingarnar undir kinnbeinunum. 
Þessu er svo öllu makað saman og úr verður 
nánast lýtalaust andlit!

En æfingin skapar meistarann og það er um að gera að prufa sig áfram. Ég mæli líka með að ef þig langar til að læra allskonar förðunartrix þá er um að gera að skoða Youtube myndbönd þar sem margir förðunarsnillingar sýna list sína.