Hummus að hætti Kris Carr

FAGURGERÐI – MATUR // Hver elskar ekki hummus? Sumir setja hummus á brauð, aðrir á kex og enn aðrir borða hann með niðurskornu grænmeti.

Megin uppistaðan í hummus er kjúklingabaunir. Hummus er svo til í allavega útgáfum og áferðum. Sumir vilja hafa hummusinn grófan og þykkan á meðan aðrir kjósa að hafa hann vel maukaðan og í þynnri kantinum

Uppskriftin að þessum guðdómlega hummus er komin frá snillingnum henni Kris Carr. Ég breytti uppskriftinni lítillega, aðallega hlutföllunum en annars er þetta algjörlega hennar uppskrift.

Hráefni:
1 og 1/2 bolli kjúklingabaunir (eldaðar)
1 msk sítrónusafi (úr sítrónu)
1 msk tahini (mæli með lífrænu og raw frá Biona)
1 hvítlauksrif, pressað
2 tsk ólífuolía
1/2 tsk cummin (eða meira)
1/2 tsk sjávarsalt (eða meira)
Svartur pipar
1/4-1/2 vatn

Aðferð:
1. Setjið allt hráefnið í kröftugan blandara (eða notið töfrasprota) og blandið vel saman. Byrjið á að setja 1/4 bolla af vatni og bætið svo meiru við ef þið viljið hafa hummusinn þynnri.
2. Smakkið til. Byrjið á að setja hálfa tsk af cummin og sjávarsalti. Bætið við ef þið viljið meira bragð. Eins er best að setja temmilega mikið af svörtum pipar til að byrja með og bæta svo við ef þið viljið hafa hummusinn bragðsterkari. Það er voða erfitt að taka það til baka ef maður hefur kryddað of mikið (ég tala af reynslunni :-)).
3. Setjið hummusinn í skál. Það getur verið gott að kæla hann aðeins inn í ísskáp (sirka 1-2 klst) áður en þið framreiðið hann. Þið ráðið svo hvort þið borðið hummusinn með grænmeti eða smyrjið honum á brauð eða kex. Mér finnst æði að borða hann með niðurskornum gulrótum (niðurskorið grænmeti er einhverra hluta vegna alltaf girnilegra) og eru lífrænu gulræturnar frá Akurseli (þessar sem fást í Bónus) í miklu uppáhaldi hjá mér.

ATH. #1 Í upprunalegu uppskriftinni er mælt með því að krydda líka með paprikukryddi. Þar sem ég var búin með venjulega paprikukryddið mitt og átti bara reykta papriku (sem er allt öðruvísi á bragðið) þá sleppti ég paprikunni. En ég efast ekki um að þessi hummus yrði enn betri með paprikukryddi. Munið bara að krydda lítið í einu 🙂

Njótið!

johanna@fagurgerdi.is

Fyrri greinGuðmunda og Jagačić leikmenn ársins
Næsta greinTiger opnar á Selfossi