Hráfæði karamellu- og súkkulaðisælu molar

FAGURGERÐI – MATUR // Þessir molar eru alveg guðdómlega góðir.

Hrásúkkulaði:
60g hrátt kakósmjör (ca 1/4 bolli bráðið)
20g kókosolía (ca 1 og 1/2 til 2 msk)
1 msk hrátt hunang (eða hlynsíróp)
4-5 msk hrátt kakó

Karamella:
50g lífrænar mjúkar döðlur (steinlausar)
smá vatn
maldonsalt eða himalajasalt eftir smekk (ef þið viljið salta karamellu)
1 msk hlynsíróp (fyrir þá sem vilja þetta sætara en má sleppa því döðlurnar eru í sjálfu sér alveg nógu sætar!)

Aðferð:
Bræðið kakósmjör og kókosolíu í vatnsbaði, hrærið kakó og sætu saman við. Hellið góðri botnfylli í súkkulaðiform og frystið. Á meðan skellið þið döðlum, salti (ef vill) vatni og sætu (ef vill) saman og bregðið töfrasprotanum á það svo úr verði þykk karamella. Byrjið með lítið vatn og bætið heldur við, þetta á alls ekki að verða eins og döðlumauk eða mjög þunnt. Best er að blanda sem minnst svo enn séu einhverjir döðlubitar. Takið formið úr frysti, setjið karamellu ofan á hvern súkkulaðibotn en passið að hún fari ekki út í barmana og fyllið svo upp í með því sem er eftir af súkkulaðinu svo það þekji karamelluna. Það er ekki óeðlilegt að eitthvað verði eftir af döðlukaramellu sem þið getið þá bara átt í eitthvað annað.

Frystið nú molana í amk 1-2 klst. Þá er hægt að ná þeim úr forminu og gæða sér á. Geymið í loftþéttu íláti í frysti… ef það verður eitthvað eftir.

olof@fagurgerdi.is

Fyrri greinNýr 200 fermetra pallur og HM í beinni
Næsta greinSérsveitin aðstoðaði við leitina