Hin fullkomna raw súkkulaðikaka

FAGURGERÐI – MATUR // Ég hef áður gert raw pekansúkkulaðiköku og ég hef margoft gert raw súkkulaðiköku, en þessi súkkulaðikaka er án efa sú allra besta raw súkkulaðikaka sem ég hef gert.

Fyrir utan hvað hún er guðdómleg á bragðið, þá er áferðin alveg fullkomin. Hún þarf ekki að þiðna á borðinu í tvær klukkustundir þar til maður getur skorið hana (ég hef ekki alltaf þolinmæðina í það). Uppskriftin er heldur ekki flókin, sem mér finnst alltaf vera mikill kostur. Botninn er mátulega þéttur í sér og fyllingin minnir helst á súkkulaðimús. Sem sagt, hin fullkomna súkkulaðikaka.

Botninn:
2 bollar pekanhnetur (lagðar í bleyti yfir nótt)
1 bolli döðlur (lagðar í bleyti í nokkrar klst eða yfir nótt)
1 bolli kókosflögur
¼ bolli kakónibbur
¼ bolli kókosolía (við stofuhita)
¼ bolli raw kakó
½ tsk sjávarsalt

Setjið allt í matvinnsluvél eða blandara og blandið vel. Setjið í hringlaga kökumót og inn í frysti á meðan fyllingin er búin til.

Fyllingin:
2 bollar kasjúhnetur (lagðar í bleyti í nokkrar klst eða yfir nótt)
1 bolli raw kakó
1 bolli vatn
½ bolli kókosolía
½ bolli akasíuhunang
1 tsk lífræn vanilla
¼ tsk sjávarsalt

Setjið allt í matvinnsluvél eða blandara og blandið mjög vel saman, eða þar til blandan er orðin silkimjúk. Hellið yfir botninn og setjið inn í frysti í tvær klukkustundir eða svo. Þegar kakan er tekin úr frysti þarf hún ekki langan tíma til að þiðna, 30 mín ættu að vera algjört hámark.

Njótið!