Heimsins besta hrákaka

FAGURGERÐI – MATUR // Þessi hrákaka er engri lík.

Ég held að ég hafi aldrei búið til jafn góða hráköku og þá er nú mikið sagt þar sem ég hef búið til alveg þó nokkrar.

Þessi kaka er líka alveg ekta kaka sem þið búið til ef þið viljið heilla allt fólkið í matarboðinu sem þið eruð boðin í.

Svo er þessi kaka líka bara frábær bara fyrir ykkur sjálf. Maður ætti alltaf að borða fallegan og litríkan mat, alveg sama hvort einhver sér matinn manns eða ekki. Þið eigið nefnileg allt það besta skilið.

Botninn:
1 bolli möndlur (lagðar í bleyti í sólarhring)
1/2 bolli döðlur (það eru sirka 9 stykki) (lagðar í bleyti í nokkrar klukkustundir)
1/2 + 1/3 bolli mórber
1/4 bolli kakónibbur
1/4 bolli kókosmjöl
1/4 bolli raw kakó
1/2 tsk lífræn vanilla (duft)
Smá sjávarsalt

Aðferð:
1. Afhýðið möndlurnar og skolið vel. Þið afhýðið möndlurnar með því að þrýsta möndlunni milli þumalputta og vísifingurs. Þannig ætti mandlan að poppa úr hýðinu (vonandi skilst þetta).
2. Setjið möndlurnar í kröftugan blandara eða matvinnsluvél og kurlið vel.
3. Setjið restina af hráefninu í blandarann/matvinnsluvélina og blandið öllu saman. Það getur verið gott að vera búinn að saxa döðlurnar gróflega niður áður en þið setjið þær í blandarann, svona til að hjálpa blandaranum að blanda öllu betur saman.
4. Setjið blönduna í stórt hringlaga mót. Dreifið vel úr með sleikju þannig að botninn verði sléttur og fínn.
5. Setjið inn í frysti á meðan fyllingin er búin til.

Fyllingin:
1 bolli kasjúhnetur (lagðar í bleyti yfir nótt)
1 bolli jarðarber
1/2 bolli bláber
1/4 bolli kókosmjólk
1/4 bolli kókosolía, við stofuhita
4 msk hlynsíróp
Safi úr hálfri sítrónu
1 tsk lífræn vanilla (duft)
Smá sjávarsalt

Aðferð:
1. Setjið allt hráefnið í kröftugan blandara og blandið vel. Ef þið notið frosin ber (ég gerði það) þá þurfið að leyfa berjunum að þiðna áður en þið setjið þau í blandarann.
2. Hellið blöndunni yfir botninn og setjið inn í frysti á meðan þið búið til súkkulaðið.

Súkkulaðið:
1 bolli raw kakó
1/2 bolli kakósmjör
1/2 bolli kókosolía
1/4 bolli hlynsíróp
2 tsk lucuma
1 tsk lífræn vanilla (duft)
Smá sjávarsalt

Aðferð:
1. Setjið allt þurrefnið í skál.
2. Bræðið kakósmjörið yfir vatnsbaði. Blandið kókosolíunni og hlynsírópinu saman við kakósmjörið þegar það hefur bráðnað alveg.
3. Hellið blautefninu í skálina með þurrefnunum og notið lítinn písk til að blanda súkkulaðinu vel saman.
4. Leyfið súkkulaðinu að kólna aðeins eða þar til það er orðið volgt.
5. Hellið súkkulaðinu yfir fyllinguna.
6. Leyfið súkkulaðinu að harðna örlítið (kuldinn frá kökunni er fljótur að sjá um það – óþarfi að setja kökuna aftur inn í frysti). Skreytið með bláberjum, kókosflögum og gojiberjum.
7. Setjið kökuna inn í frysti í nokkrar klukkustundir svo að hún nái örugglega að „bindast“ öll saman. Og þá er hún tilbúin.

Njótið!

ATH. #1 Ég mæli með því að þið notið gæðahráefni í þessa köku. Gæðahráefni þýðir gæðamatur, svo einfalt er það. Ég hef sagt það áður og mun halda áfram að segja það: Lífrænar kasjúhnetur eru öðruvísi á bragðið eða ólífrænar – í alvöru. Ég hef einhvern tímann neyðst til að nota ólífrænar því að þær lífrænu voru búnar í öllum búðum hér á Selfossi – og oj, aldrei aftur! Ég nota langoftast kasjúhneturnar frá Heilsu (og líka döðlur og möndlur). Kakóduftið, kakósmjörið og gojiberin kaupi ég alltaf frá Navitas. Þeir sem þekkja það merki skilja afhverju – gæðin eru einfaldlega engu lík.
ATH. #2 Ef kakan er búin að vera lengi inn í frysti þá þarf hún að fá að þiðna aðeins áður en þið skerið hana og borðið.

johanna@fagurgerdi.is

Fyrri greinBókakaffið í stórsókn í bókaútgáfu
Næsta greinDímon vann annað árið í röð