Halloween nammi

FAGURGERÐI – MATUR // Þetta Halloween nammi sló algjörlega í gegn hjá fjölskyldunni minni.

Stóri kosturinn við þetta Halloween nammi er hversu einfalt það er – og inniheldur ekki trilljón hráefni. Allir ættu að geta búið til þetta nammi.

Það eina sem fólk þarf að passa sig eitthvað sérstaklega á er að láta karamelluna ekki brenna við á pönnunni, annars er þetta allt saman ofureinfalt – og ofurgott! 🙂

Þetta Halloween nammi er alveg ekta til að hafa í krakkapartýjum/afmælum eða þegar þið eigið von á góðum gestum. Já eða bara til að borða á meðan þið horfið á uppáhalds sjónvarpsþáttinn ykkar 🙂

Hráefni:
2 dl kókospálmasykur
2 msk vatn
4 msk kókosmjólk
½ tsk lífræn vanilla (duft en ekki dropar)
Pínu sjávarsalt
8 bollar ósaltað popp (það er sirka 1 dl poppmaís)
1 súkkulaðiplata (ég notaði 85% súkkulaði en þið notið bara eins dökkt/ljóst og þið viljið)
1 msk kókosolía
Aðferð
1. Byrjið á að poppa poppið og leggið til hliðar.
2. Setjið kókospálmasykurinn í blandara og setjið blandarann á fullan kraft en bara í smá stund. Við erum bara að tala um max 10 sekúndur. Kókospálmasykurinn er mjög fljótur að verða að dufti. Þetta er gert svo að það sé auðveldara að bræða hann en kókospálmasykurinn er oft heldur grófur.
3. Hellið kókospálmasykrinum(duftinu) á pönnu.
4. Setjið 2 msk af vatni á pönnuna og hærið saman með sleif þannig að sykurduftið blotni. Stillið helluna á hæsta straum.
5. Um leið og pannan fer að hitna setjið þá kókosmjólkina út í og hærið vel.
6. Þegar sykurinn hefur blandast kókosmjólkinni almennilega, takið þá pönnuna af hellunni. Passið vel upp á að karamellan brenni ekki við!
7. Setjið vanilluna og sjávarsaltið út í og blandið vel saman.
8. Setjið poppið í stóra skál. Passið að fjarlægja allan poppmaíisinn sem hefur ekki poppast (þið viljið ekki hafa steina í namminu ykkar!).
9. Hellið karamellunni yfir poppið og blandið vel saman með sleikju þannig að karamellan þekji allt poppið.
10. Setjið bökunarpappír í kassalaga form og hellið karamellupoppinu í formið. Notið gaffal til að þjappa poppinu betur í formið.
11. Setjið formið inn í frysti á meðan þið bræðið súkkulaðið.
12. Bræðið súkkulaðið ásamt kókosolíunni í vatnsbaði.
13. Þegar súkkulaðið hefur náð fljótandi formi takið þá formið úr frystinum og notið skeið til að láta súkkulaðið leka yfir poppið þannig að það komi súkkulaðilínur.
14. Setjið formið aftur inn í frysti í sirka 30 mínútur.
15. Takið formið úr frystinum og skerið í bita. Poppið gerir það að verkum að bitarnir verða ekki mjög reglulegir í laginu (kassalega) en það er allt í lagi. Þetta er ekta svona nammi sem lúkkar bara betur þegar það er í alls konar stærðum 🙂
Njótið!
johanna@sunnlenska.is

Fyrri greinSveinn sæmdur heiðursmerki Landsbjargar
Næsta greinTröllatvenna Ragga dugði ekki til