Hafrabollur

FAGURGERÐI – MATUR // Ég gerði þessar bragðgóðu og ofurhollu hafrabollur fyrir skömmu.

Bollurnar eru sérlega trefjaríkar og því einstaklega góðar fyrir meltinguna. Ef meltingin er ekki nógu góð þá er nánast öruggt að heilsan er heldur ekki nógu góð.

Þessar bollur eru tiltölulega fljótlegar í framkvæmd og alveg meiriháttar góðar 🙂

Hráefni:

 • 3 vel þroskaðir bananar
 • 1/3 bolli eplamauk
 • 2 bollar haframjöl (ég notaði glútenlaust frá Biona)
 • 2 msk möndlusmjör (dökkt)
 • 1 msk akasíuhunang (eða önnur sæta)
 • 4 msk graskersfræ
 • 1 msk möluð hörfræ
 • ¼ bolli apríkósur eða döðlur, smátt saxað
 • ½ plata af dökku súkkulaði (ég notaði 85%), gróflega saxað
 • ½ tsk lífræn vanilla (duft ekki dropar)
 • ½ tsk kanill
 • ¼ tsk sjávarsalt

Aðferð:

 1. Stillið bakaraofninn á 180°C (með blæstri).
 2. Takið bananana úr hýðinu og setjið í stóra skál. Stappið vel.
 3. Setjið eplamaukið, möndlusmjörið og akasíuhunangið í skálina og blandið því vel saman við við bananana.
 4. Setjið restina af hráefnuum í skálina og blandið vel saman. Gott er að nota handþeytara, á lægstu stillingu og blanda þannig öllu vel saman.
 5. Setjið bökunarpappír á ofnplötu. Ein ofnplata ætti að duga.
 6. Notið tvær matskeiðar til að setja deigið á plötuna. Gott er að miða við sirka 1 stóra msk í hverja bollu.
 7. Setjið inn í ofn og bakið í 10 mínútur.
 8. Leyfið bollunum að kólna örlítið áður en þið leggið þær ykkur til munns.

Njótið!

Fyrri greinGanga 3 km leið að flug­vélarflakinu
Næsta greinForeldrar vilja stytta sumarfrí leikskólans