Guðdómlegt grænmetislasagne

FAGURGERÐI – MATUR // Ég geri þetta lasagne mjög oft, enda fljótlegt, einfalt og alveg guðdómlega gott.

Það sem gerir þennan rétt svo góðan er sósan. Stóri kosturinn við sósuna er hversu fljótur maður er að búa hana til. Og svo er maður heldur enga stund að skera niður grænmetið og rífa niður ostinn.

Sem sagt, fljótlegur og góður rétttur – og að sjálfsögðu líka hollur.

Sósuna má svo líka nota sem pizzasósu (ég geri það oft). Eða bara með pasta.

Sósan:

  • 400 ml maukaðir tómatar
  • 2 msk tómatpúrra
  • 2 hvítlauksrif
  • 3 msk næringarger
  • 1 msk oreganó
  • 1 msk majoran
  • Smá hvítlauksduft
  • Smá sjávarsalt
  • Svartur pipar
  • 1 lúka af ferskri basiliku

Grænmetið:

  • 1 stór kúrbítur
  • 1 eggaldin
  • 2 stórir tómatar
  • 1/2 box sveppir
  • 1/2 – 1 brokkólíhaus (fer eftir stærð)

+ vegan ostur

Aðferð:

  1. Stillið bakaraofninn á 180° (með blæstri).
  2. Pressið hvítlauksrifin og saxið basilikuna smátt niður. Setjið í skál ásamt restinni af sósu-hráefninu og blandið vel saman.
  3. Skerið kúrbítinn langsum (gott að skera endann fyrst af) og í þunnar sneiðar. Leggið sneiðarnar í stórt eldfast mót þannig að þær hylji alveg botninn.
  4. Setjið sirka helminginn af sósunni yfir kúrbítinn. Dreifið vel úr með skeið.
  5. Skerið eggaldin í þunnar sneiðar og raðið yfir sósuna eða þannig að eggaldinsneiðarnar þeki allt fatið.
  6. Skerið sveppina í þunnar sneiðar og setjið yfir eggaldinsneiðarnar. Gott er að setja smá svartan pipar yfir sveppina, en það er ekki nauðsynlegt.
  7. Setjið restina af sósunni yfir sveppina og dreifið vel úr.
  8. Skerið tómatana í þunnar sneiðar og raðið í fatið.
  9. Rífið brokkólíið niður og dreifið því yfir fatið.
  10. Rífið ostinn niður og dreifið yfir fatið. Magn fer eftir smekk. Setjið smá svartan pipar yfir ostinn.
  11. Setjið fatið inn í ofn og bakið í sirka 30 mínútur.

Njótið!

ATH. #1 Þið getið að sjálfsögðu notað annað grænmeti en ég notaði. Stundum nota ég bara það sem til er í ísskápnum. Hlutföllin eru heldur ekki heilög. Þið getið notað minna af hverju eða meira af öðru.

ATH. #2 Ég mæli með næringargerinu frá KAL. Ef þið eruð óvön að nota næringarger eða vitið ekki hvað það er, þá getið þið lesið ykkur meira til um það hér.

ATH. #3 Ég elska vegan ostana frá Divina Teresa. Ég notaði þennan ost hér frá þeim.

johanna@sunnlenska.is

Fyrri greinHöfuðmeiðsli á Hellisheiði
Næsta greinÞrettán HSK met sett í Brúarhlaupinu