Grænkálssnakk

FAGURGERÐI – MATUR // Grænkálssnakk er einstaklega fljótlegt og einfalt snakk að búa til.

Svo er það líka svo gott á bragðið! 🙂

Hráefni:

 • 1 stór poki af grænkáli
 • 2 msk næringarger
 • 2 msk sesamfræ
 • Smá sjávarsalt
 • 2-3 msk af ólífuolíu

Aðferð:

 1. Stillið ofninn á 150° (með blæstri).
 2. Rífið kálið af stönglunum. Betra að hafa kálið í stórum bútum en litlum, þannig að reynið að tæta það ekki alveg niður.
 3. Setjið kálið í stóra skál.
 4. Setjið næringargerið, sesamfræin, sjávarsaltið og olíuna í skálina með kálinu og blandið vel saman. Mér finnst best að byrja að nota skeið til að blanda þessu saman (rétt svo hræra i skálinni) og svo nota hendurnar til að nudda kálinu saman við hráefnið þannig að allt blandist örugglega vel saman.
 5. Setjið bökunarpappír á ofnplötu og dreifið vel úr kálinu.
 6. Setjið inn í ofninn í 8-12 mínútur. Fylgist vel með. Kálið er fljótt að brenna ef þið hafið það of lengi. Þegar kálið er orðið stökkt þá er það tilbúið. Látið kólna í smá stund áður en þið borðið (ég næ aldrei að láta það kólna – finnst það of gott til að bíða).
Njótið!
ATH. #1 Næringarger er alveg nauðsynlegt í þessa uppskrift svo að ekki sleppa því. Fyrir þá sem ekki vita þá á næringarger ekkert skylt við venjulegt ger. Það er ríkt af B vítamínum (þaðan kemur nafnið) og gefur einstakan osta- og hnetukeim. Ég nota alltaf næringargerið frá KAL (fæst t.d. í Nettó).
ATH. #2 Ég set oft meira eða minna af næringargerinu, sesamfræjunum og olíunni. Hlutföllin eru sem sagt alls ekki heillög en það er gott að hafa þessar mælieiningar sem viðmið þegar þið búið til snakkið.
Fyrri greinAnnað jafntefli Hamars
Næsta greinHSK ályktar harðlega gegn áfengisfrumvarpi