Gestamolar

FAGURGERÐI – MATUR // Ég kalla þetta raw gotterí gestamola því að þetta er alveg ekta svona sem maður býr til í einum grænum þegar maður á von á góðum gestum í kaffi.

Þessi uppskrift er svolítið brot af því besta sem var til á heimilinu þann daginn. Þetta er alls ekki flókin uppskrift og hlutföllin eru heldur ekki heilög. Það er allt í lagi að setja meira af einhverju og minna af öðru – eða bara sleppa. Það eru t.d. ekki allir sem fíla kakónibbur (ég elska þær).

Ég mæli þó ekki með að sleppa kakósmjörinu því að það er svolítið „límið“ sem heldur þessu öllu saman.

Hráefni:

  • 1/2 bolli, rúmlega, kakósmjör
  • 1 bolli döðlur
  • 1 bolli möndlur
  • 1/2 bolli sólblómafræ
  • 1/2 bolli graskersfræ
  • 1/2 bolli gojiber
  • 1/2 bolli mórber
  • 1/2 bolli kókosflögur (muldar)
  • 1/4 bolli kakónibbur
  • 3 msk raw kakó
  • 1 tsk lífræn vanilla (duft en ekki dropar)
  • Smá sjávarsalt
  • 4 msk kókosolía, við stofuhita

Aðferð:

  1. Bræðið kakósmjörið í vatnsbaði.
  2. Á meðan kakósmjörið er að bráðna, saxið þá döðlurnar og möndlurnar smátt niður og setjið í stóra skál ásamt restinni af hráefninu – öllu nema kókosolíunni. Blandið öllu vel saman með sleikju.
  3. Þegar kakósmjörið hefur bráðnað, hellið því þá í skálina ásamt kókosolíunni og blandið vel saman með sleikju.
  4. Setjið bökunarpappír í kassalaga mót (ég notaði 22x32cm) og hellið úr skálinni í mótið. Þjappið með gaffli á blönduna svo að bitnarnir verða þéttir í sér. Setjið inn í frysti í sirka 15-20 mínútur eða þann tíma sem tekur fyrir kakósmjörið að harðna á ný.
  5. Takið mótið úr frystinum, takið bökunarpappírinn upp úr mótinu – þannig að þið „veiðið“ sælgætið upp í heilu lagi – setjið á skurðbretti og skerið í mátulega stóra bita. Þið ráðið algjörlega hversu stóra eða litla bita þið skerið í. Ég skar bæði langa og stutta – enda bæði betra.
  6. Setjið bökunarpappírinn með sælgætinu aftur í mótið og aftur inn í frysti og leyfið bitunum að harðna vel í gegn, en það ætti að taka í mesta lagi klukkutíma.
  7. Takið bitana úr frystinum og bjóðið nágrönnunum í kaffi 🙂

Njótið!

johanna@sunnlenska.is

Fyrri greinJóga Nídra hefst á fimmtudaginn
Næsta greinJazz- og blúshátíð á Blómstrandi dögum