Gerðu þitt eigið hárband!

FAGURGERÐI – HANNYRÐIR // Það er lítið mál að prjóna eða hekla sér fallegt hárband. Hér er ég með nokkrar hugmyndir sem er auðvelt að spreyta sig á.

Þetta eru tilvalin verkefni bæði fyrir byrjendur sem og lengra komna.

Fyrst er það hárband sem ég gerði fyrir þó nokkru síðan, en virkar alltaf og er ofur einfalt. Það eina sem þarf eru tveir sokkaprjónar og fínt band. Svo til að ganga frá bandinu þarf auðvitað tvinna í svipuðum lit og tölu til að festa ef vill.

Hugmyndin er sprottin frá þessari uppskrift að hálsmeni sem ég fann eitt sinn á Ravelry.com.

Hér er frágangurinn þannig að tala er notuð til að festa endana saman. Sjálfsagt væri smekklegra að sauma endana saman með tvinna, en það er smekksatriði.

Næst er það hárband sem ég hef gert nokkrum sinnum. Það er bæði prjónað og heklað úr grófu bandi. Gróft band er hægt að kaupa á ýmsum stöðum tilbúið, en það þarf heldur ekki að kaupa sér gróft band dýrum dómi heldur er þetta tilvalið verkefni þar sem hægt væri að klippa niður gamlar flíkur því það þarf ekki svo langan spotta í eitt hárband.

Við gerð hárbandsins byrjaði ég á því að fitja upp á 13 lykkjur á prjóna nr. 15. Fyrsta umferðin er einfaldlega þannig að allar lykkjurnar eru felldar af. Þá náði ég í grófa heklunál (nr. 10 minnir mig að ég hafi notað) og heklaði nógu margar loftlykkjur til þess að tengja saman hárbandið í hring. Svo er gengið frá endanum með því að fela hann inn í bandið og best væri að sauma hann fastan með tvinna í sama lit til þess að gulltryggja að hann fari ekkert á flakk þegar tognar á bandinu við notkun.

Í þessari útgáfu er bandið aðeins þykkara að framan en þynnra að aftan. Ef vill má auðvitað prufa aðrar útgáfur þar sem bandið væri prjónað allan hringinn, þá væri fitjað upp á fleiri lykkjur, sirka 25-30 og fella af allar lykkjurnar í fyrstu umferð. Svo þyrfti að sauma endana tvo saman. Þá yrði til band sem væri jafn þykkt allan hringinn.

Hér er sýnt hversu einfalt það er að gera fléttuð bönd úr niðurklipptum bolum. Þá er hægt að leika sér með þykktina og blanda saman skemmtilegum litum. Einnig væri hægt að gera fléttur úr tvöföldu bandi sem myndu gefa bandinu enn meiri grófleika.

steinunn@fagurgerdi.is

Fyrri greinFjör í frjálsíþróttaskólanum
Næsta greinÞorsteinn Gunnlaugs í Hamar