Frábær fjölskylduskemmtun

FAGURGERÐI – HEIMILIÐ // Við fjölskyldan höfum undanfarin ár verið með „landa þemu“ kvöld fyrir krakkana. Við höfum venjulega valið laugardagskvöld því þá eru allir í fríi og hægt að nota daginn til undirbúnings.

Þetta er frábær leið til að kynnast menningu annara landa og til að eiga frábæra stund með fjölskyldunni.

Við höfum haft þetta þannig að það er eldaður matur og búnar til skreytingar sem tengjast viðkomandi landi. Nokkur orð eru lærð á viðkomandi tungumáli, talað um höfuðborgina, tónlist o.s.frv. Einnig er mjög mikilvægt að færa kvöldmatinn frá matarborðinu t.d. inn í stofu, út á pall eða t.d. út í garð.

Síðastliðið laugardagsvöld var ákveðið að hafa franskt kvöld. Stelpurnar okkar tvær fengu að velja matinn og notast var við eina uppáhalds uppskriftabókina mína „The Little Paris Kitchen“ eftir Rachel Khoo. Síðan voru föndraðir franskir fánar og fánalengjur. Einnig áttum við yfirvararskegg á pinnum sem pössuðu vel við þemað. Síðan fá allir að taka þátt í matseldinni.

Með þessu móti er hægt að fá krakkana til að borða mat sem undir venjulegum kringumstæðum þau mundu fúlsa við. Uppskriftin sem stelpurnar völdu var Ratatouille sem er frönsk klassík. Flest allar franskar fjölskyldur eiga sína uppáhalds uppskrift sem að þeirra mati er best. Við gerðum pínulitlar breytingar á uppskriftinni hennar Rachel og var útkoman yndislega ljúfeng og hún var ekki síðri köld daginn eftir. Karlmennirnir hefðu viljað fá eitthvað kjöt með þessu en annars voru allir ánægðir.

Ratatouille:
3 stk. hvítlauksrif marin,
1 stk. laukur smátt saxaður,
3 teskeiðar Herbes de Provence krydd,
3 matskeiðar af extra virgin ólífu olíu,
1 stk. eggaldin þunnt skorin,
1 stk. kúrbítur þunnt skorin,
1 stk. rauð paprika fræhreinsuð og skorin,
1 stk. appelsínugul paprika fræhreinsuð og skorin,
5 stk. tómatar skornir í báta,
smá hrásykur og salt.

Hitið ofninn í 180 gráður. Brúnið lauk, hvítlauk og Herbes de Provence krydd í tveimur matskeiðum af ólífuolíu. Þegar laukurinn er orðin mjúkur er kúrbít og eggaldin bætt við og látið malla í ca. 5 mín.

Allt grænmeti er sett í eldfast form með restinni af ólífuolíunni og blandað vel saman. Álpappír settur yfir eldfasta formið og bakað í ofni í eina klukkustund. Þá er álpappírinn tekin af og smakkað hvort það vanti meira salt og hrært aðeins í grænmetinu. Smá hrásykri er dreift yfir og sett undir grillið í ofninum í 3-4 mín þannig efsta lagið að grænmetinu karmelliserist. Borðist strax eða kalt daginn eftir.

Við höfum tekið hin ýmsu lönd fyrir og krökkunum finnst þetta ótrúlega skemmtilegt. Næst stefnum við á rússneskt eða grískt þema. Aldrei að vita hvort ég skelli inn nokkrum myndum af því. Verst að ég eigi ekki myndir frá japanska kvöldinu okkar en þá misst frúin sig allveg í Origami skreytingum.

Mig langar að gefa heppnum lesanda, pakka af pappírsrörum, pakka af mottupinnum og kryddið góða Herbes de Provence. Þannig ef þig langar í þannig pakka segðu þá „Já takk“ í ummælum hér undir og við drögum svo út einhvern heppinn.

lovisa@fagurgerdi.is
Fyrri greinMagnús Gísla: Að horfa fram á við
Næsta greinFimm sunnlenskar sveitir í Músiktilraunum