Ert þú að nota þvottavélina þína rétt?

FAGURGERÐI – HEILSA // Síðastliðið haust var ég svo heppin að fara á námskeið hjá Dr. Karli Aspelund, mannfræðingi og lektor í hönnun við University of Rhode Island í Bandaríkjunum.

Á þessu námskeiði, sem var reyndar um íslenska þjóðbúninginn, öðluðumst við sem sátum námskeiðið gífurlegan mikinn fróðleik m.a. um textíl, sjálfbærni, umhverfsisvernd og líka hversu mengandi þvottavélar eru.

Flest okkar þvoum þvottin okkar:

– Of oft
– Á of miklum hita
– Og notum of mikið af þvottaefni við þvottinn

Að sögn Karls er það fyrst og fremst núningurinn í þvottavélinni sem gerir fötin hrein – ekki þvottaefnið. Þessar upplýsingar opnuðu algjörlega augun mín og eftir námskeiðið fór ég að nota minna þvottaefni og þvo fötin á minni hita (fyrir utan náttúrulega handklæði og nærföt). En mig langaði að taka næsta skref – hætta að nota þvottaefni.

Það var svo snemma í apríl á þessu ári sem ég ákvað að gera tilraun með þetta. Ég er öll í því að gera tilraunir. Mitt mottó er svolítið að maður veit ekki ef maður prófar aldrei. Mér finnst einmitt mjög gaman að kaupa hin og þessi náttúrulyf (vítamín) sem eiga að gera alls konar kraftaverk. Sum virka og ég held áfram að kaupa og nota þau á meðan önnur virka ekki fyrir fimmaur sem þýðir að ég kaupi þau aldrei aftur. Ég er alltaf reynslunni ríkari og öll reynsla er dýrmæt.

En ég var að tala um þvottavélar. Í apríl var ég líka að lesa nýjustu bókina hans David Wolfe, Longevity Now (2013). Það er bók sem ég mæli heilshugar með fyrir alla þá sem vilja láta sér líða sem allra best – því öll eigum við það skilið. Í bókinni talar Wolfe um að maður eigi ekki að nota þvottaefni til að þvo fötin því að þvottaefni eru rík af xenoestrogens sem hafa slæm áhrif á hormónastarfsemina í okkur. Talið er að xenoestrogens hafi meðal annars áhrif á brjóstakrabbamein eða réttara sagt myndun þess. Fólk gleymir því oft að húðin er stærsta líffærið okkar. Þau efni sem liggja á henni, hvort sem það er efni í kremum og snyrtivörum, efni í fötum sem hafa verið þvegin með óæskilegum efnum eða eitthvað annað, berst að stórum hluta í blóðrásina. Einmitt þess vegna er góð þumalputtaregla að setja aldrei neitt á húðina sem maður má ekki borða.

Það kom mér á óvart að samkvæmt David Wolfe eru umhverfisvænu þvottaefnin ekki einu sinni örugg fyrir okkur. Þegar maður hugsar út í það þá innihalda mörg umhverfisvæn þvottaefni kemísk efni sem við mættum aldrei borða. Wolfe mælir m.a. með því að nota Dr. Bronner’s sápu til að þvo þvottinn. Dr. Bronner’s sápurnar eru svo hreinar og umhverfisvænar að maður má meira að segja drekka þær. Það er þó ekki mælt sérstaklega með því 🙂

Síðan í apríl hef ég þvegið þvottinn á heimilinu með matarsóda og Dr. Bronner’s sápu. Ég set sirka 2 msk af matarsóda og smá slurk af Dr. Bronner’s sápu (kannski 1-2 msk). Það er skemmst frá því að segja að þvotturinn kemur alltaf ilmandi og hreinn úr þvottavélinni! Um daginn fékk þessi „þvottaefna-blanda“ ákveðna prófraun en mér hafði tekist að sulla bláberjasafa yfir bolinn minn (ég get stundum verið svo mikil subba í eldhúsinu). Bolurinn var úr þannig efni að ég gat ekki þvegið hann á meira en 30° þannig að ég var mjög forvitin að vita hvort hann kæmi hreinn út úr vélinni með þessari umhverfisvænu þvottaefna-blöndu. Mér til mikillar gleði og ánægju kom hann algjörlega blettalaus út!

Prófið að sleppa þvottaefninu í einhvern tíma. Þið getið líka notað nokkra dropa af ilmkjarnaolíu, eins og t.d. lavender, tea tree eða sítrónu í bland við matarsódann. Þið getið líka sleppt matarsódanum alveg en hans hlutverk er aðallega að mýkja fötin og fjarlægja lykt. Með því að sleppa þvottaefninu eruð þið að gera sjálfum ykkur og umhverfinu gríðarstóran greiða. Munið, við eigum bara eina jörð. Jörðin okkar er líka eina plánetan sem er með súkkulaði svo að það er eins gott að við hugsum vel um hana 🙂

johanna@fagurgerdi.is

Fyrri greinÞrjú innbrot í Hveragerði
Næsta greinMargbreytileikinn í myndum