Carmel raw kaka

FAGURGERÐI – MATUR // Þessi kaka var ein af vinsælustu uppskriftunum á blogginu mínu – ef ekki sú vinsælasta.

Einhverra hluta vegna gleymdist að setja uppskriftina hingað inn. En betra seint en aldrei – hingað er hún komin.

Ekki láta innihaldslýsinguna eða aðferðina hræða ykkur. Þessi kaka er algjörlega þess virði „að hafa smá fyrir“ 🙂

Nafnið á kökunni er komið af því að mér finnst hún minna svo á carmel súkkulaðið sem maður fékk einu sinni út í búð (eða fæst það kannski einhvers staðar ennþá)? Þið vitið, þetta sé var í álbréfi og var stökkt og sérlega bragðgott.

Botninn:

 • 1 bolli pekanhnetur
 • 1 bolli kasjúhnetur
 • 10 döðlur
 • 3 msk kókosolía, við stofuhita
 • 3 msk hunang (ég notaði akasíuhunang frá Biona)

Byrjið á því að kurla pekanhneturnar niður og setjið til hliðar. Blandið síðan kasjúhnetunum, döðlunum, kókosolíunni og hunanginu öllu vel saman í matvinnsluvél, með töfrasprota eða í blandara. Þegar blandan er tilbúin hrærið þá pekanhnetunum saman við með sleif og setjið í kökumót/eldfast mót og setjið inn í frysti í klukkutíma eða meira.

2. lag:

 • 1 bolli döðlur
 • 1/4 bolli lífrænt kakó
 • 1/4 bolli hunang (ég notaði akasíuhunang)
 • 1/2 bolli kasjúhnetur
 • 1/4 tsk sjávarsalt
 • 1 bolli heslihnetur
 • 1/4 bolli kókosolía

Blandið saman döðlunum, kakóinu, hunanginu, sjávarsaltinu og kasjúhnetunum vel saman í matvinnsluvél, með töfrasprota eða í blandara. Setjið kókosolíuna síðast saman við og blandið vel saman. Kurlið heslihneturnar og blandið vel saman við með sleif. Smyrjið ofan á botninn og setjið mótið aftur inn í frysti.

3. lag:

 • 2 bollar (tæplega) pekanhnetur
 • 2 msk kókosolía
 • 1/4 tsk sjávarsalt
 • 1 msk hunang (ég notaði akasíuhunang)
 • 1/4 bolli kasjúhnetur

Blandið öllu vel saman, líka hnetunum, í matvinnsluvél, með töfrasprota eða í blandara. Smyrjið ofan á 2. lagið og setjið mótið aftur inn í frysti.

4. lag – súkkulaðið

 • 1/3 bolli lífrænt kakó
 • 1/2 bolli kakósmjör, brætt
 • 8 döðlur
 • 1/4 bolli hunang (ég notaði akasíuhunang)
 • 1/2 tsk lífræn vanilla
 • smá sjávarsalt
 • 2 msk vatn

Bræðið kakósmjörið og blandið vel saman við döðlurnar, hunangið, kakóið, vanillunni og sjávarsaltinu. Þegar súkkulaðið er orðið fallega glansandi, bætið þá vatninu saman við og blandið vel saman við. Setjið ofan á 3. lagið og inn í frysti. Kakan er svo tilbúin til átu eftir nokkrar klukkustundir eða svo. Athugið að þegar hún er alveg frosin að þá er best að láta hana vera á borðinu í hálftíma til klukkutíma, annars er eins og þið séuð að borða ís.

Njótið!

Fyrri greinFramlög ríkisins duga ekki
Næsta greinTeiknimyndir á sýningu