Bláberjamuffins (hnetulausar)

Bláberjamuffins. sunnlenska.is/Jóhanna SH

Þessi uppskrift er mjög einföld í framkvæmd og þarf ekki ýkja mörg hráefni. Svo eru engar hnetur í henni svo að hún ætti að henta breiðum hópi fólks.

Þetta er heldur ekki stór uppskrift svo að fólk þarf ekki að fara á hausinn við að kaupa hráefnið í hana. Það er líka ótrúlega svekkjandi að vera búinn að gera stóra hrákökuuppskrift sem er maður er svo ekkert að fíla á endanum. En ég vona samt að þið fílið þessar raw bláberjamuffins – að minnsta kosti hafa allir sem hafa smakka þær verið mjög ánægðir með þær enda eru þær bæði hollar og góðar.

Botninn:

 • 1 ½ bolli kókosflögur
 • 1 bolli döðlur
 • 2 msk kókosolía, við stofuhita
 • 3 msk hlynsíróp
 • Smá sjávarsalt

Aðferð:

 1. Öllu skellt í matvinnsluvélina og blandað þar til allt loðir vel saman.
 2. Notið matskeið til að skammta deiginu í sílíkonmuffinsform. Þrýstið vel niður með skeiðinni. Deigið ætti að passa fyrir sirka sjö muffinskökur.
 3. Leggið til hliðar á meðan þið gerið kremið.

Kremið:

 • 1 bolli döðlur
 • ½ bolli frosin bláber (sem hafa fengið að þiðna að mestu)
 • ½ bolli kókosmjólk (full fat)
 • ½ tsk lífrænir vanilludropar
 • 1 msk hlynsíróp

Aðferð:

 1. Setjið döðlurnar í skál og hellið sjóðandi heitu vatni yfir. Látið liggja í vatninu í klukkutíma eða svo. Þetta er gert til að döðlurnar verði mýkri og auðveldara sé að mauka þær.
 2. Setjið döðlurnar ásamt restina af hráefninu í blandara og blandið þar til allt er orðið silkimjúkt og laust við alla kekkji. Athugið að það er líka hægt að nota töfrasprota til að mauka kremið.
 3. Notið matskeið til að skammta kreminu ofan á botnana. Sléttið vel úr í leiðinni
 4. Skreytið með muldum kókosflögum.

Athugið að þetta er frekar lítil uppskrift. Um að gera að tvöfalda hana (eða jafnvel þrefalda) ef þið viljið metta fleiri munna.

Bláberjamuffins. sunnlenska.is/Jóhanna SH

 

Fyrri grein„Við vorum sjálfum okkur verstar“
Næsta greinTíu marka sigur Selfoss í fyrsta leik