Berjadraumur

sunnlenska.is/Jóhanna Petersen

FAGURGERÐI – MATUR // Þessi dásamlega hrákaka varð til eitt kvöldið þegar ég og 8 ára gamall sonur minn vorum eitthvað að dúlla okkur í eldhúsinu. Okkur langaði að gera nýja uppskrift að hráköku en sonur minn hefur sterkar skoðanir á því hvernig hrákökur eiga að vera og hvernig þær eiga að bragðast – enda alinn upp á hrákökum.

Við vorum sammála um að kakan yrði líka að vera falleg – ekki bara bragðgóð – því að fallegur matur bragðast alltaf miklu betur. Eftir ekki svo mikla hugmyndavinnu varð þessi kaka til hjá okkur mæðginunum.

Kakan er bragðgóð, fersk, stútfull af næringu og já, það sem mestu máli skiptir: Falleg.

Ef þið eigið matvinnsluvél og blandara þá eruð þið enga stund að gera þessa köku. Þið eruð líklega lengur að vaska upp alla aukahlutina sem fylgja matvinnsluvélinni en að búa til sjálfa kökuna.

sunnlenska.is/Jóhanna Petersen

Berjadraumur

Botninn:

  • 1 bolli döðlur
  • 1 bolli valhnetur (sem hafa verið lagðar í bleyti yfir nótt)
  • 3 msk kókosolía
  • Smá sjávarsalt

Aðferð:

  1. Hellið vatninu af valhnetunum og skolið þær örlítið.
  2. Setjið hneturnar, döðlurnar, kókosolíuna og saltið í matvinnsluskálina og blandið vel saman þannig að allt loði vel saman.
  3. Setjið bökunarpappír í hringlaga kökumót með lausum botni. Ég notaði form sem er 22 cm þvermáli. Þið getið líka notað annað kökumót eða jafnvel eldfast mót, bara eins og ykkur hentar. Það er þó afskaplega þægilegt að hafa kökuna í svona lausbotna formi þannig að maður geti tekið hana auðveldlega úr, sett á disk og skorið í sneiðar.
  4. Þjappið deiginu í vel niður í formið, til dæmis með matskeið eða hreinum höndum.
  5. Setjið formið til hliðar á meðan þið búið til fyllinguna.
sunnlenska.is/Jóhanna Petersen

Fyllingin:

  • 1 ½ bolli kasjúhnetur (sem hafa verið lagðar í bleyti í minnst 6 klst)
  • 1/3 bolli hlynsíróp
  • ½ bolli kókosmjólk, „full fat“
  • ¼ bolli kókosolía, við stofuhita
  • 3 msk sítrónusafi (úr ferskri sítrónu)
  • 1 tsk lífrænir vanilludropar
  • Örlítið sjávarsalt

+ Einn bolli blönduð frosin ber (ég keypti berjablöndu frá Krónunni)

Aðferð:

  1. Setjið allt í blandara nema frosnu berin og blandið vel saman.
  2. Hellið sirka helmingnum í skál og setjið til hliðar.
  3. Setjið frosnu berin (sem eru mjög fljót að þiðna við stofuhita) saman við hinn helminginn og blandið vel saman. Þið getið bætt við smá hlynsírópi ef ykkur finnst berjablandan vera of súr en það er smekksatriði.
  4. Hellið berjablöndunni í formið sem er með deginu. Dreifið vel úr.
  5. Setjið inn í frysti og geymið í sirka 2 klst.
  6. Takið formið úr frystinum og hellið hvítu blöndunni yfir. Dreifið vel úr.
  7. Skreytið með frosnum berjum.
  8. Setjið aftur inn í frysti og geymið yfir nótt.
  9. Kakan þarf að fá að þiðna í sirka 15 mín áður en hún er skorin.

Njótið!

sunnlenska.is/Jóhanna Petersen
Fyrri greinUngmennahús opnar í Hveragerði
Næsta greinEfla og Völuberg annast jarðfræðiþjónustu fyrir Eyjagöng