Þingborgarskokkurinn

FAGURGERÐI – HANNYRÐIR // Síðastliðið sumar gerðum við okkur ferð í Flóann, ég, mamma mín og systur mínar. Tilefnið var hátíðin Fjör í Flóa.

Viðkomustaðirnir okkar voru samt aðallega sniðnir að því að komast á grænmetismarkaðinn og fá pönnsur, en ég hafði það í gegn að kíkja í Ullarvinnsluna í leiðinni.

Í Ullarvinnslunni er hægt að fá alveg ofboðslega fallegt lopaband sem er sérspunnið og svo litað af starfsfólkinu þar. Bæði er fáanlegt jurtalitað band og kemískt litað. Litirnir sem til eru hjá þeim eru dásamlegir og ég hefði helst viljað kaupa þá alla ef buddan hefði leyft mér það! Ég lét mér nægja að kaupa þrjár dásamlegar hnotur af jurtalituðu einbandi.

Þá var bara að finna sér eitthvað fallegt að prjóna úr Þingborgarbandinu. Eftir nokkrar tilraunir og upprekingar ákvað ég að gera stutterma skokk handa Þórunni Erlu litlu stelpunni minni. Svo þegar kjóllinn var tilbúinn til notkunar var greinilegt að mamman hélt að litla stelpan sín væri ennþá pinku ponsu kríli. Kjóllinn svokallaði var stuttermabolur á henni! Ég geri líklega ekki nógu mikið af því að mæla prjónfestu, enda lítið gaman af svoleiðis veseni 🙂

En við erum svo lánsamar að eiga eina litla vinkonu, hana Ernu Carøe Pelledóttur, sem eignaðist kjólinn og ber hann afar vel. Hér er hún með mömmu sinni, Heiðrúnu Ernu Hlöðversdóttur.

Eiginleg uppskrift af kjólnum er ekki til, en það er þó ofur einfalt að gera sér svona kjól. Mig minnir að ég hafi fitjað upp á 120 lykkjur, gerði smá slétt og brugðið stroff. Prjónaði svo bolinn slétt og skipti reglulega um lit til þess að fá röndótt. Þegar ég var komin eitthvað áleiðis með bolinn tók ég út í hliðunum í annarri hverri umferð.

Þegar bolurinn var klár felldi ég af einhverjar 10-12 lykkjur þar sem handvegurinn átti að koma. Það þarf samt að hafa í huga að ný umferð hefst í miðjum handvegi svo það þarf að enda fyrri umferð á því að fella af helminginn af lykkjunum og hefja nýja umferð á að fella af restina af lykkjunum. Þegar búið er að fella af lykkjurnar fyrir báða handvegina er í næstu umferð fitjað upp á svipað mörgum, kannski aðeins fleiri lykkjum þar sem fellt var niður áður. Til að útbúa smá stroff við handveginn prjónaði ég brugðnar lykkjur fyrstu tvær umferðirnar þar sem uppfitið var gert.

Svo þar sem ég var ekki með neitt berumynstur var leikurinn auðveldur þegar kom að úrtökunni.

Ágætt að hafa úrtöku í þriðju hverri umferð eða svo. Svo þegar ykkur finnst vera komið gott, þá er ágætt að gera smá stroff í hálsmálið og fella mjög laust af. Annars verður hálsmálið of þröngt og erfitt að komast í flíkina.

Hægt er að leika sér með svona einfaldar flíkur og hafa jafnvel einlitar með fallegu gatamynstri í bolnum eða axlarstykkinu – bara láta hugmyndarflugið ráða!

Ef það eru einhverjar spurningar má endilega hafa samband við mig á steinunnbirna@fagurgerdi.is