Von á plötu fyrir næstu jól

Hljómsveitin með langa nafnið, The Assassin of a Beautiful Brunette, gaf út sitt fyrsta lag, Going Down, á netinu fyrr í vikunni.

Hljómsveitin var stofnuð á Selfossi í janúar í fyrra og tók þátt í Músiktilraunum það ár með góðum árangri. Hljómsveitin lenti í 3.sæti, var kosin ,,Hljómsveit fólksins ” og Skúli Gíslason, trommari sveitarinnar, var valinn besti trommarinn.

Auk Skúla skipa sveitina þeir Fannar Freyr Magnússon, Alexander Freyr Olgeirsson, Sigurgeir Skafti Flosason og Daníel Haukur Arnarsson.

Að sögn gítarleikarans Fannars Freys spilar hljómsveitin melódískt draumkennt rokk með popp ívafi og ber nýja lagið, Going Down, þess skýrt merki. Það er fyrsta lagið sem sveitin sendir frá sér en hún hefur verið í hljóðveri undanfarnar vikur og stefnir á að gefa út sína fyrstu plötu fyrir næstu jól. Lítið hefur farið fyrir opinberri spilamennsku hjá sveitinni að undanförnu en Fannar segir að von sé á tónleikum á Selfossi í næsta mánuði.

Lagið Going Down er eftir hljómsveitina en textinn eftir Fannar og Alexander. Lagið má nálgast á heimasíðu hljómsveitarinnar: www.theassassin.net