Útlit fyrir góða mætingu á Selfossblót

Ellefta Selfossblótið er á laugardaginn og að sögn Kjartans Björnssonar er útlitið mjög gott með veður og þátttöku.

“Margt góðra gesta munu koma og skemmta okkur á blótinu sem vert er að gefa gaum. Þar má nefna heimsókn Eyja-hljómsveitarinnar Dans á rósum sem koma fram í fyrsta sinn á Selfossblótinu, Magnús Þór Sigmundsson úr Hveragerði kemur til okkar og hljómsveitin Rófustappa mun sjá um að allir unnendur gömlu góðu dansana fá eitthvað við sitt hæfi,” sagði Kjartan í samtali við sunnlenska.is.

Einnig munu Stefán Hilmarsson og Daníel Haukur munu stíga á stokk ásamt ungu listafólki frá Selfossi. Sigurgeir Hilmar fer með sinn árlega Selfossbrag og veitt verður menningarviðurkenning Selfossþorrablótsins sem nefnist Selfosssprotinn og er hann veittur í áttunda sinn.

Kjartan hefur alltaf boðið heiðursgestum á blótið. “Að þessu sinni eru þeir fulltrúar úr atvinnulífi okkar Selfyssinga og Sunnlendinga á liðnum áratugum en það eru þeir Páll Árnason og Benedikta Guðnadóttir, Sigfús Kristinsson og Sólveig Þórðardóttir, Sigurður Guðmundsson og Einar Elíasson,” segir Kjartan.

Veislustjóri verður Valdimar Bragason og veisluföng verða fram borin af Eldhúsi sælkerans líkt og undanfarin ár.

Kjartan segist ánægður með viðtökurnar og er mikill áhugi burtfluttra Selfyssinga á blótið í ár.

Enn eru nokkrir miðar lausir á blótið sjálft sem seldir verða á Rakarastofu Björns og Kjartans í Miðgarði á meðan þeir endast auk þess sem forsala á dansleikinn fer fram á sama stað.