Uppselt! Aukatónleikum bætt við

Uppselt er á tvenna útgáfutónleika Jónasar Sigurðssonar og Lúðrasveitar Þorlákshafnar um næstu helgi. Aukatónleikum hefur verið bætt við á sunnudaginn kl. 16.

Á tónleikunum mun Jónas, í samvinnu við Lúðrasveit Þorlákshafnar, fagna útgáfu nýrrar breiðskífu, Þar sem himin ber við haf. Af því tilefni er blásið til stórfenglegra útgáfutónleika á föstudags- og laugardagskvöld – og síðdegis á sunnudag – í Reiðhöll Guðmundar í Þorlákshöfn.

Um er að ræða nýtt efni og þematengda upplifun frá tónlistarmanninum Jónasi þar sem hafið spilar stórt hlutverk. Lagið „Þyrnigerðið“, sem hljómað hefur á öldum ljósvakans í sumar og haust, er meðal annars að finna á þessari breiðskífu sem verður flutt í heild sinni.

Fram munu koma, ásamt Jónasi og lúðrasveitinni, eldriborgaratónlistarbandið Tónar og trix, Stefán Örn Gunnlaugsson á hljómborð, Ómar Guðjónsson á gítar, Kristinn Snær Agnarsson á trommur, Ingi Björn Ingason á bassa og fleiri.

Þetta er einstakur viðburður og upplifun fyrir öll skilningarvit.

Miðasala er á midakaup.is

Fyrri greinKom heim með hálft hundrað verka
Næsta greinHaraldur Birgir nýr sviðsstjóri